Sólbrenndir Stólar máttu sín lítils gegn meisturunum
Tindastóll lék fyrsta leik sinn í Dominos-deildinni í kvöld og sótti heim vængbrotið lið Íslandsmeistara KR. Talsverðar væntingar eru gerðar til Tindastóls-liðsins fyrir tímabilið en þeir voru flengdir af flottu KR-liði með Brynjar Björn og Sigurð Þorvalds sjóðheita. Lið KR var fjórum stigum yfir í hálfleik en sigraði að lokum 98-78.
Einhverra hluta vegna hafa Tindastólsmenn ákveðið að hefja tímabilið með tvo Senegala í liðinu og annar þeirra var reyndar ekki með í kvöld. Þá hafa bæst í hópinn þeir Björgvin Hafþór og Bretinn Chris Caird. Frá Stólunum eru farnir þeir Darrel Lewis, Darrel Flake, Ingvi Ingvars og Myron Dempsey. Senegalinn Mamadou Samb er nú búinn að æfa með Stólunum í mánuð en þrátt fyrir að hafa leikið í efstu deild á Spáni þá var hann í litlum takti við leikinn í kvöld og er alls ekki sannfærandi enn sem komið er þrátt fyrir að búa yfir ágætu skoti.
Í lið KR í kvöld vantaði landsliðsmennina Jón Arnar Stefánsson og Pavel Ermolinski auk þess sem KR-ingar voru án útlendings. Stólarnir voru því í dauðafæri að vinna sjaldgæfan sigur í Vesturbænum og jafnvel talað um það fyrir leik að heimaliðið væri litla liðið í þessum leik. Annað kom á daginn.
KR-ingar náðu yfirhöndinni strax í byrjun og komust í 17-4. Costa tók leikhlé, Stólarnir þéttu varnarleikinn og komu Samb af stað í sókninni. Staðan var 23-19 fyrir KR að loknum fyrsta leikhluta og ljóst að Brynjar Björn gat skorað þegar hann vildi. Það tókst aldrei að stoppa hann í leiknum. Annar leikhluti var ágætur hjá Tindastólsmönnum og liðin skiptust á um að hafa forystuna. Pétur var góður og gerði nokkrar laglegar körfur og kom Stólunum í 32-35 en heimamenn gerðu sjö síðustu stigin í fyrri hálfleik og voru yfir 39-35.
Augljóslega máttu Stólarnir ekki byrja síðari hálfleik líkt og þann fyrri en það var akkúrat það sem gerðist. Brynar Björn gerði þrjár 3ja stiga körfur í röð og staðan orðin 48-37. Þann mun náðu Tindastólsmenn aldrei að brúa og voru aldrei líklegir til þess. Þeir virtust því miður ekki hafa neina trú á verkefninu og voru hvorki sannfærandi í vörn né sókn. Að þriðja leikhluta loknum var staðan 70-55 og mestur varð munurinn 26 stig í fjórða leikhluta.
Það er ljóst að Stólarnir verða að stíga rækilega upp fyrir heimsókn Akureyringa í næstu viku. Þetta var lystarlaus frammistaða og ekki oft sem maður hefur séð lið Tindastóls bara gefast upp snemma í þriðja leikhluta. Það verður þó ekki tekið af KR-ingum að þeir gengu á lagið og spiluðu oft vel. Vörn Tindastóls gekk engan veginn að loka á Brynjar og svo bætti ekki úr skák þegar Sigurður Þorvalds fór að skora að vild. Pétur var bestur í liði Tindastóls, gerði 22 stig, en næstur honum kom Samb með 17. Caird var slakur og þá var skarð fyrir skildi að ökklameiðsli virtust taka sig upp hjá Viðari.
Stólarnir flugu of nærri sólinni í kvöld og brenndu sig rækilega á því. Nú er bara að hrista díselvélina í gang og taka hraustlega á móti Þórsurum. Áfram Tindastóll!
Leikskýrsla KKÍ >
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.