Sofie Dall og María Dögg með Stólastúlkum

Sofie Dall og María Dögg. Myndin er samsett.
Sofie Dall og María Dögg. Myndin er samsett.

Lið Tindastóls sem spilar í Bestu deild kvenna í sumar hefur óvænt náð að styrkja hópinn en Sofie Dall Henriksen hefur gengið til liðs við Stólastúlkur. Að sögn Donna þjálfara var Sofie fyrir tilviljun að vinna á Króknum hjá Mjólkursamlaginu. „Við fengum veður af því frá yfirmanni hennar að þarna væri stelpa sem hefur áður verið að spila fótbolta.

Sofie er fædd 1998 en hún hefur áður leikið knattspyrnu á Íslandi því hún lék 20 leiki með Aftureldingu sumarið 2021 í Lengjudeild og bikar. „Hún var hætt en við buðum henni að kíkja á æfingar og henni fannst það mjög gaman og stóð sig mjög vel. Við ákváðum svo i sameiningu að hún myndi skipta yfir til okkar þar sem hún mun búa á Króknum í einhvern tíma. Hún er spennandi leikmaður sem eykur breiddina í hópnum og kemur vel inn í það sem er i gangi hjá okkur,“ segir Donni.

Ekki er nóg með að það hafi hlaupið á snærið hjá kvennaliðinu því kærasti Sofiu, Andreas Juhl, er líka liðtækur fótboltamaður og hann æfir nú með karlaliði Tindastóls.

María Dögg endurnýjar

Þá fór það framhjá Feyki að rétt fyrir síðustu mánaðamót þá endurnýjaði María Dögg Jóhannesdóttir samning sinn við knattspyrnudeild Tindastóls. María Dögg er 22 ára á árinu og hefur spilað yfir 130 leiki með Stólastúlkum.

Á heimasíðu Tindastóls segir Donni að María sé mikill leiðtogi, bæði innan og utan vallar. ,,Hún drífur liðið áfram með miklum krafti og áræðni. María er mjög sterkur varnarmaður en finnst fátt skemmtilegra en að bregða sér í sóknina og þar er hún líka mjög öflug.“ María er mjög fjölhæfur leikmaður og hefur í gegnum tíðina leyst margar stöður á vellinum og gert það vel.

,,Það er mikið gleðiefni að hafa Maríu hjá okkur áfram í baráttunni og vonum að hún verði hjá okkur sem lengst.“ segir Donni að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir