Snjópöntunin fyrir október loks að skila sér
Það hefur kyngt niður snjó hér Norðanlands síðasta sólarhringinn og rúmlega það. Það þýðir að skíðavinir kætast og draumurinn um dúnmjúkt hvíta gullið á skíðasvæðinu í Tindastóli fer að kitla. Það var því ekki annað að gera en heyra í þeim köppum á skíðasvæðiinu og spyrja hvort opnun væri í pípunum eða hvort snjórinn væri hreinlega orðinn of mikill.
„Það er spurning, við höfum verið heldur litlir í okkur, opnuðum fyrir æfingar í október í fyrra en ekki fengið snjóinn sem vantaði upp á ennþá. En pöntunin sem við lögðum inn í október er að detta inn rétt fyrir jól. Við stefnum á að opna um leið og aðstæður leyfa. Öll tæki eru nú úti að ýta og reyna að fanga snjóinn. Stefnum á göngubraut fyrir jol og fjallið sem allra fyrst en vantar ennþá þo nokkuð til,“ var svarið sem Feykir fékk.
Unnið var við snjógirðingar í sumar, þær lagfærðar og girðingum bætt við á göngusvæðinu og er sú vinna að skila sér vel. Skíðadeild Tindastóls minnir síðan á að það er 20% afsláttur af vetrarkortum á skíðasvæðið til 1. janúar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.