Slakur varnarleikur varð Stólastúlkum að falli gegn Fylki

Læti í leiknum gegn Stjörnunni á dögunum. Næst koma Valsstúlkur í heimsókn. MYND: ÓAB
Læti í leiknum gegn Stjörnunni á dögunum. Næst koma Valsstúlkur í heimsókn. MYND: ÓAB

Donni þjálfari var ekki par sáttur við sínar stelpur í dag eftir skell í Árbænum þegar Stólastúlkur sóttu Fylki heim. Árbæjarliðið sat á botni deildarinnar fyrir leikinn, höfðu ekki unnið leik síðan í maí, en eftir jafnan fyrri hálfleik tók heimaliðið völdin og vann sanngjarnan 4-1 sigur.

Þetta var fyrsti leikur Tindastóls án Gwen Mummert sem hefur verið frábær í vörninni bæði í fyrrasumar og í sumar. Maria Del Mar sem kom í hennar stað sat á bekknum í dag og kom ekki við sögu í leiknum. Ljóst er að lið Tindastóls þarf að finna lausnir á varnarleiknum í kjölfarið á brotthvarfi Gwen en varnarleikur liðsins var ekki í lagi í dag.

Stólastúlkur hófu leikinn vel og náðu forystunni strax á 10. mínútu. Þá átti Elísa Bríet góða sendingu á Jordyn Rhodes sem hafði nógan tíma inni á vítateig Fylkis og skoraði gott mark. Lið Tindastóls hefði getað bætt við marki í framhaldinu en það voru heimastúlkur sem jöfnuðu leikinn á 38. mínútu. Abigail Boyan fékk þá boltann og sótti að marki Tindastóls, vörnin bakkaði undan henni án þess að setja á hana pressu og hún fékk nægan tíma til að smella óverjandi skoti á mark Monicu.

Lið Fylkis hóf síðari hálfleik af krafti og eftir nokkrar hornspyrnur þá fékk Helga Guðrún Kristinsdóttir boltann ein og óvölduð á fjærstöng og skallaði boltann glæsilega í markið. Þrátt fyrir góða baráttu tókst Stólastúlkum ekki að skapa sér almennileg færi en alltof oft sköpuðu heimastúlkur sér álitlegar stöður og upp úr einni slíkri kom þriðja mark þeirra á 70. mínútu. Þá skoraði Guðrún Karítas Sigurðardóttir mark eftir fyrirgjöf af hægri kanti. Gestirnir bættu í sóknina og hefðu getað minnkað muninn en enn var háspenna lífshætta í varnarleiknum. Á 88. mínútu kórónaði Kolfinna Baldursdóttir góðan leik Fylkis þegar hún komst á auðan sjó inni á vítateig Tindastóls og renndi boltanum framhjá Monicu í markinu.

„Fyrri hálfleikurinn góður, seinni hálfleikurinn ömurlegur, það er ekkert flóknara en það,“ sagði Donni þjálfari við Vísi að leik loknum. Aðspurður um hvort liðið hefði saknað Gwen sagði hann: „Við söknuðum að sjálfsögðu Gwendolyn, eðlilega. Ég held að öll lið hefðu saknað Gwendolyn sama á móti hverjum og hvenær sem er. Við skrifum þetta samt ekkert á einn leikmann, bara heildarframmistaða liðsins var ömurleg í seinni hálfleik og það er eitthvað sem við þurfum að gera betur gegn töluvert sterkara liði í næsta leik,“ en nú strax á miðvikudaginn koma meistarar Vals í heimsókn á Krókinn. Lið Tindastóls er nú í áttunda sæti deildarinnar með 11 stig en Fylkir og Keflavík eru bæði með níu stig.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir