Skyldusigur í Hertz-hellinum
Tindastólsmenn fóru nokkuð létt með ÍR-inga í Hertz-hellinum í Seljaskóla í gær þegar þriðja umferð Dominos-deildarinnar hófst. Stólarnir náðu undirtökunum upp úr miðjum fyrsta leikhluta en náðu þó ekki að stinga heimamenn af fyrr en í þriðja leikhluta. Pétur Birgis og Chris Caird voru bestir í liði Stólanna en lokatölur voru 68-82.
Breiðhyltingar voru reyndar án þriggja kempna; Kristins Marinós, Stefáns Karels og Matthíasar Orra en Stólarnir voru án Viðars. Costa og Martin ákváðu að fá meiri hraða í lið Stólanna til að nýta sér þetta og því byrjaði Pape Seck leikinn í stað Samb. Seck gerði reyndar aðeins eina körfu í leiknum, setti niður þrist og kom Stólunum í 4–5, en hann komst lítið í takt við leikinn og Samb endaði á því að spila talsvert meira. Stólarnir komust í 9-18 en þá gerðu ÍR-ingar næstu 10 stig en Stólarnir enduðu fyrsta leikhluta betur og voru yfir 19-24.
Lið Tindastóls var fljótt að byggja upp tíu stiga forskot í öðrum leikhluta en þá voru Caird, Pétur og Samb að gera góða hluti. Mestur varð munurinn 15 stig, 25–40, en ÍR-ingar náðu að klóra í bakkann fyrir hlé. Staðan 34–44 í hálfleik.
ÍR-ingar komu einbeittir til leiks í þriðja leikhluta og minnkuðu muninn í þrjú stig, 44–47, en þeim tókst ekki að komast nær þrátt fyrir möguleika til þess. Stólarnir hrukku hinsvegar í gang og nú fór Pétur fyrir sínum mönnum. Þegar þriðja leikhluta lauk var staðan orðin 48–67 og fjórði leikhluti nánast formsatriði. Munurinn á liðunum var þá yfirleitt 15 til 20 stig og fátt markvert sem gerðist annað en að Matthew Hunter gerði flautakörfu í blálokin með skoti fyrir aftan miðju.
Svona leikir þar sem annað liðið kemur skaddað til leiks geta oft reynst snúnir en Stólarnir voru aldrei nálægt því að missa leikinn úr höndum sér, þrátt fyrir nokkra spretti ÍR. Bestir í liði Tindastóls voru Pétur og Caird. Pétur var með 22 stig, níu fráköst og fimm stoðsendingar. Caird hitti vel og var stigahæstur með 26 stig og gaman að sjá þegar hann finnur fjölina. Helgi Margeirs var ekkert að misnota fjölina sína og var spar á skotin, ávöxtunin var þó betri en gengur og gerist í bankageiranum því skotin þrjú skiluðu níu stigum. Björgvin átti fínan leik en þó sérstaklega í vörninni þar sem hann hirti ellefu fráköst og stal þremur boltum.
Mamadou Samb er ágætur skotmaður og hann skilaði 15 stigum og átta fráköstum í gærkvöldi en það er niðurdrepandi að sjá þennan hávaxna leikmann virka hálf ónýtan undir körfu andstæðinganna. Í gærkvöldi var hann að skrefa, honum ýtt frá körfunni og boltinn sleginn úr höndunum á honum alltof auðveldlega. Reyndar komust ÍR-ingar upp með að brjóta á honum en Samb virðist alls ekki vera sá sterki leikmaður sem stuðningsmenn Stólanna áttu von á að berja augum í vetur. Vonandi nær hann vopnum sínum og sýnir okkur hvar Davíð keypti ölið.
Næsti leikur Tindastól er í Síkinu fimmtudaginn 27. október en þá koma Njarðvíkingar í heimsókn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.