Skallar kipptu stólunum undan Stólunum
Ef það var brekka fyrir Tindastólsstrákana að færa sig upp í næstu deild fyrir ofan þá varð hún enn brattari í kvöld þegar Stólarnir gerðu sér lítið fyrir og töpuðu í Borgarnesi. Fyrir leik voru Skallagrímsmenn í áttunda sæti deildarinnar með tíu stig en lið Tindastóls í fjórða sæti með 20 stig. Það kom gestunum að litlu gagni því heimamenn unnu leikinn 2-0.
Stólarnir hafa verið að spila vel að undanförnu og eftir erfiða byrjun á mótinu í 4. deild í sumar farnir að eygja von um að blanda sér í toppbaráttuna. Liðin gerðu 2-2 jafntefli á Króknum í fyrri leik liðanna þar sem Skallar jöfnuðu í uppbótartíma í leik þar sem heimamenn komust varla yfir miðju í síðari hálfleik sökum gífurlegs mótvinds. Heimamenn komust yfir snemma í síðari hálfleik og bættu við öðru marki sínu undir lok leiks.
Samkvæmt upplýsingum Feykis spilaði vindurinn stóra rullu í kvöld og þó það sé gömul en ólseig tugga þá mun dómgæslan hafa verið tragíkómísk. Í stöðunni 1-0 sleppti dómari leiksins að dæma Stólum borðleggjandi víti og mark var tekið af gestunum fyrir rangstæðu sem menn höfðu miklar efasemdir um að væri réttur dómur. Hiti var í leikmönnum liðanna og var David Jimenez sýnt rautt spjald en þar var víst rangur maður hafður fyrir sök. Ekki var þó hægt að kenna dómaratríóinu um allt sem miður fór því Stólunum gekk afleitlega að nýta færin í kvöld, settu boltann bæði í slá og stöng í leiknum og misnotuðu urmul annarra færa.
Mögulega ansi dýrkeypt tap en svona er þetta bara stundum og ekkert annað í stöðunni en hið sígilda áfram gakk. Enn eru 18 stig í pottinum og allt er mögulegt í fótbolta – nema að vinna Manchester City.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.