Skagfirðingur Norðurlandameistari í skólaskák
Skagfirðingar eignuðust nýjan Norðurlandameistara á Norðurlandamóti í skólaskák sem fram fór í Vaxjö í Svíþjóð um síðastliðna helgi. Óskar Víkingur Davíðsson hampaði þar sigri í flokki skákmanna 11 ára og yngri. Óskar er sonur Erlu Hlínar Hjálmarsdóttir frá Brekku og barnabarn Valdísar Óskarsdóttur.
Óskar Víkingur þykir með efnilegri skákmanna Íslands af yngri kynslóðinni. Á vef Skákfélagsins Hugins segir að Óskar Víkingur hafi bætt árangur sinn frá því í fyrra þegar hann var í öðru sæti í sama flokki. Að ári færist Óskar upp um flokk þannig að róðurinn verður þyngri á yngra árinu í næsta flokki fyrir ofan.
„Óskar Víkingur sem er félagsmaður í Skákfélaginu Huginn hefur sótt æfingar félagsins í þrjú og hálft ár og verið nemandi í Skákskóla Íslands drjúgan hluta þess tíma. Það má því segja kominn hafi verið uppskeru tími hjá Óskari eftir mikla vinnu og hann toppað á réttum tíma eftir smá lægð í vetur,“ segir á vefnum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.