Skagfirðingar í basli með bílana sína
Rallý Reykjavík, fjórða umferð í íslandsmótinu í rallý fór fram dagana 25. – 27. ágúst sl. Um var að ræða afar langa keppni þar sem eknir voru um 1.000 km á þremur dögum en þar af rúmlega 300 á sérleiðum. Ekið var víðs vegar um Suður- og Vesturland, m.a. um Kaldadal, Djúpavatn og í nágrenni Heklu. Sex félagar úr bílaklúbbi Skagafjarðar tóku þátt, en lentu í basli með bíla sína og náði því ekki inn í baráttuna um verðlaunasætin.
Alls hófu 20 áhafnir keppnina á fimmtudeginum, fyrirfram var ljóst að hart yrði barist um verðlaunasætin og stig til íslandsmeistara enda margir þaulreyndir ökumenn skráðir til leiks. Var álag mikið, bæði á áhafnir sem og bifreiðar, enda fór strax á fyrsta degi að bera á bilunum í bifreiðum. Viðgerðarfólk vann hörðum höndum að lagfæringum en að lokum voru það einungis 15 áhafnir skiluðu sér í endamark.
Daníel og Ásta Sigurðarbörn leiddu keppnina við lok fyrsta dags. Tókst þeim að halda forystunni til enda og sigra með tæplega 8 mín forskot á þá Sigurð Braga Guðmundsson og Aðalstein Símonarson. Þeir Sigurður og Alli höfðu frá fyrsta keppnisdegi verið í öðru sæti óku öruggir og einbeittir, með öðru sæti juku þeir forskot sitt í íslandsmótinu til muna.
Mikil barátta var um þriðja sætið en allt fram að síðustu sérleið leit út fyrir að Eyjólfur Melsteð og Heimir Snær Jónsson yrðu í þriðja sæti eftir gríðarlega góðan akstur. Þeir urðu hins vegar fyrir því óhappi að falla úr keppni fyrir síðustu sérleiða sökum bilunar í bifreið þeirra. Þar með var eftirleikurinn auðveldur hjá Marian Sigurðssyni og Ísak Guðjónsyni sem höfðu með góðum akstri á laugardeginum saxað jafnt og þétt á forskot þeirra Eyjólfs og Heimis.
Biluð vél þeirra Eyjólfs og Heimis hafði einni mikil áhrif á sætaröðun í jeppaflokki en þeir voru nær öruggir með sigur í þeim flokki fyrir síðustu sérleiðina. BS - félaginn Guðmundur Snorri Sigurðsson og Magnús Þórðarson stóðu hins vegar uppi sem sigurvegarar eftir mikla dramatík á síðustu sérleiðinni, Djúpavatni þar sem drifskaft bilaði í bifreið þeirra. Með sigri í flokkinum var íslandsmeistaratitill einnig í höfn. Í öðru sæti urðu Þorkell Símonarson og Þórarinn K. Þórsson en í þriðja sæti varð eina erlenda áhöfnin að þessu sinni, Jonathan Harford og Gavin Bull.
Bílaklúbbur Skagafjarðar átti fjóra aðra þátttakendur í keppninni. Þau Baldur Haraldsson og Katrín María Andrésdóttir lentu strax á fyrsta degi í basli með bifreið sína en það teygði sig fram á síðasta dag. Luku þau því keppni í 11. sæti. Þórður Ingvason og Snorri Sturluson áttu einnig í vandræðum með nýja bifreið sína. Þeir héldu þó ótrauðir áfram og enduðu þátttöku sína í 13. sæti.
Síðasta umferð íslandsmótsins fer fram eftir fjórar vikur og er það Bílaklúbbur Reykjavíkur sem sér um framkvæmd hennar.
Fréttatilkynning
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.