Skagamenn höfðu betur gegn Stólum í bikarnum
Lið Tindastóls fór á Skagann í dag og lék gegn heimamönnum í ÍA í 32 liða úrsltum Mjólkurbikarsins. Leikið var í Akraneshöllinni og fóru leikar þannig að Skagamenn, sem eru með lið í Bestu deild karla, höfðu betur og enduðu þar með bikarævintýri Stólanna. Lokatölur þó aðeins 3-0.
Það var Ingi Þór Sigurðsson sem gerði fyrsta mark ÍA á 34. mínútu í kjölfarið á hættulegri sókn Stólanna og hann hélt upp á það með því að skora aftur á 44. mínútu með laglegri vippu yfir Nökkva í marki Stólanna. Staðan 2-0 í hálfleik.
Um miðjan seinni hálfleik vildu Tindastólsmenn fá vítaspyrnu en dómarinn hafði ekki áhuga en gaf heimamönnum víti skömmu síðar. Ingi Þór reyndi við þrennuna en skaut yfir úr vítinu en heimamenn bættu við marki á 74. mínútu eftir slæm mistök í vörn Tindastóls. Þar var Hilmar Elís Hilmarsson á ferðinni. Þegar úrslitin voru tryggð gátu heimamenn leyft sér að gera skagfirska skiptingu; Jón Gísli Eyland Gíslason var kallaður af velli og í hans stað kom frændi hans, Rúnar Már Sigurjónsson.
Það er síðan um hálfur mánuður í að keppni í 4. deild hefjist en Tindastóll fær Skallagrím í heimsókn 8. maí að öllu óbreyttu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.