Sjálfstraust leikmanna Tindastóls gleður Pavel hvað mest þessa dagana
Það fór ekki framhjá neinum að lið Tindastóls tryggði sér sæti í undanúrslitum Subway-deildarinn um liðna helgi. Liðið gerði sér lítið fyrir og lagði Keflvíkinga í parket, vann þrjá leik meðan andstæðingarnir nældu í einn sigur. Það er gaman að fylgjast með Stólunum sem ná vel saman og stemningin í hópnum smitandi.
Á bak við liðið er síðan öflugasti stuðningsmannahópur landsins og þótt víðar væri leitað. Feykir lagði örfáar spurningar fyrir þjálfara liðsins, Pavel Ermolinski.
Hvernig fannst þér serían við Keflavík? „Serían gegn Keflvavík spilaðist virkilega vel. Mjög harðir leikir og reyndi mikið á. Mikill sómi af frammistöðu strákanna og þeirra baráttu.“
Hvað hefur þú verið ánægðastur með hjá þínu liði að undanförnu? „Það er helst sjálfstraustið í þeim sem gleður mig hvað mest þessa dagana. Skín af þeim. Það gengur alltaf betur þegar slíkt sjálfstraust er til staðar.“
Nú er ljóst að Stólarnir mæta annað hvort Valsmönnum eða Njarðvíkingum í undanúrslitum. Hver er helsti munurinn á þessum liðum? „Njarðvíkingar eru með aðeins breiðari hóp en Valsmenn. Annars eru bæði lið áþekk. Leggja mikið upp úr varnarleiknum. Helsti munurinn er að Njarðvík er með minna íþróttahús sem hentar okkur og okkar stuðningasfólki ílla.“
Hvernig leggst framhaldið í þig? „Úrslitakeppnin er langt ferðalag. Núna hefur einum áfanga verið náð.Mikilvægt að strákarnir nái að hvíla líkama og haus í nokkra daga. Svo þurfa þeir að klæða sig í vinnugallann og fara aftur af stað. Þannig virkar þetta.“
„Mætingin og stuðningurinn í alla þessa fjóra leiki í úrslitakeppni sem við höfum spilað hefur verið einstök. Ótrúlegt vopn fyrir liðið. Öll önnur lið öfunda okkur,“ segir Pavel að lokum, aðspurður um Síkið og stuðningsfólk Stólanna.
Það ræðst í kvöld hverjir andstæðingar Stólanna verða í undanúrslitum. Þá mætast Haukar og Þór Þolákshöfn í oddaleik í Hafnarfirði. Ef Haukar sigra þá verður lið Vals andstæðingur Tindastóls en ef Þórsarar fara með sigur af hólmi mæta Stólarnir Njarðvíkingum. Hvað sem verður þá er eitt ljóst – veislan heldur áfram.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.