Yngri flokkar Tindastóls sigursælir um helgina
Það voru margir leikir spilaðir um helgina hjá barna og unglingastarfi Körfuknattleiksdeildar Tindastóls. Tveir hópar MB10, stelpu og stráka, fóru á fjölliðamót, sameiginlegt lið Tindastóls/Kormáks í 9 fl. kvenna spilaði við Keflavík, 11. flokkur karla spilaði við Njarðvík og Ungmennaflokkur karla spilaði við Hraunamenn/Laugdæli og fóru allir leikirnir fram á laugardaginn.
MB10 stelpur rúlluðu af stað til Grindavíkur á föstudaginn á fjölliðamót þar sem spila átti tvo leiki á laugardag og tvo leiki á sunnudag. Sökum slæmrar veðurspár á sunnudeginum var farið í það að fá leiki sunnudagsins færða yfir á laugardag sem fékkst samþykkt svo þær gætu haldið heim á leið á laugardagskvöldinu. Sex stelpur skráðu sig til leiks og voru það þær Elín Björk, Ellen Día, Íris Ösp, María Hrönn, Sibba Sól og Svanborg sem skipuðu lið Tindastóls og með flottu spili náðu þær að sigra alla leikina sína. Helgi Freyr Margeirsson fór sem þjálfari liðsins en hann er faðir Maríu Hrannar og skrifaði hann flotta færslu á Facebook-síðu sína sem við fengum leyfi til að birta.
„Ég fór í skemmtileg ferð á fjölliðamót í Grindavík með Maríu Hrönn og liðsfélögum í flokknum Minnibolti 10 ára, það fyrsta í Íslandsmóti. Þær gerðu sér lítið fyrir og spiluðu og unnu alla fjóra leikina sína á þremur og hálfum klukkutíma til að klára mótið og sleppa heim á undan veðrinu. Önnur lið spiluðu mótið á tveimur dögum. Þetta tók mikið á því þær voru bara sex í liðinu og því mikið á hverja lagt. Rúsínan í pylsuendanum var svo fyrir Maríu að hitta Míu vinkonu sína sem spilaði á sama móti fyrir Val.
Fyrir mér eru algjör forréttindi að fá að fylgja krökkunum í þeim ævintýrum og áskorunum sem þau taka sér fyrir hendur, og sjá þau takast á við allan tilfinningaskalann og þroskann sem því fylgir að yfirstíga hindranir og geta meira en þau stundum trúa sjálf í upphafi.
Ég kvarta því ekki yfir skólastofugistingu á vindsæng sem loftið lak úr því þetta gefur mér ekkert minna en krökkunum
Áfram Tindastóll!“.
Úrslit leikjanna var eftirfarandi:
Tindastóll – Aþena/Leiknir/UMFK 30-26
Tindastóll – Breiðablik 28-16
Tindastóll – Ármann 33–20
Tindastóll – Stjarnan 19-5
MB10 strákar spiluðu á Ásvöllum í Haukaheimilinu í Hafnarfirði en áður en lagt var af stað var einungis farið með því hugarfari að spila tvo leiki því ekki fékkst samþykkt frá KKÍ að færa seinni tvo leikina sem spila átti á sunnudeginum yfir á laugardaginn sökum slæmrar veðurspár á sunnudeginum. Þegar á staðinn var komið fóru foreldar í það að fá þau lið sem spila átti við á sunnudeginum til að spila á laugardeginum svo þeir fengju að klára alla sína leiki og að sjálfsögðu var tekið vel í það. Fóru leikar þannig að strákarnir unnu alla sína leiki og vel það því ekki er skráð meira en 20 stiga forskot á töfluna. Kalvin Lewis stjórnaði liðinu fyrstu tvo leikina en seinni tvo stýrði Helgi Rafn Viggósson liðinu með stakri prýði en hann er faðir Guðna Bents sem er einn af leikmönnum liðsins. Sex strákar voru skráðir til leiks og voru það Brynjar Morgan, Daníel Smári, Guðni Bent, Haukur, Patrekur Elí og Sigurbjörn Darri og sýndu þeir allir sem einn frábæra liðsheild og voru félagi sínu til sóma á vellinum.
Skráð úrslit fór á þennan veg:
Tindastóll – Haukar c 24-4
Tindastóll – Skallagrímur 27-14
Tindastóll – ÍA 23-3
Tindastóll – Haukar b 39-19
9. flokkur kvenna spilar í vetur í sameiginlegu liði Kormáks/Tindastóls og var fyrsti leikur spilaður á laugardaginn á Hvammstanga við lið Keflavíkur sem er með mjög öflugt yngri flokka starf kvenna megin. Lið Kormáks/Tindastóls hefur ekkert náð að æfa saman í vetur og má því segja að frammistaðan sé vonum framar því leikurinn fór 31-45 fyrir Keflavík. Liðið var skipað tveim stúlkum úr Tindastól, þeim Emmu og Kaitlyn og fjórum úr Kormáki, þeim Birgittu frá Skagaströnd og Elmu, Lindu og Sögu frá Hvammstanga. Næsti leikur fer fram þann 14. október á móti KR á Meistaravöllum.
11. flokkur karla átti að spila í Síkinu við Njarðvík bæði á laugardeginum og sunnudeginum en sökum árshátíðar Skagafjarðar þurfti að færa leikina í íþróttahúsið í Varmahlíð. Fór því svo að aðeins annar leikurinn var spilaður og fór hann 70-64 fyrir Tindastól en hinum var frestað vegna veðurs. Friðrik Hrafn Jóhannsson er þjálfari liðsins en það er skipað leikmönnum úr bæði 10. og 11. flokki og eru það þeir Axel Arnars, Bernardo Tino, Fannar Páll, Indriði Rökkvi, Ingimar Hólm, Jónas Atli, Markús Máni, Natan Ingi, Reynir Smári, Samúel Ingi, Sigurður Stefán, Sæþór Pétur, Tómas Bjarki, Víðir Elís og Þorsteinn Ingi. Með þessum sigri eru þeir búnir að vinna tvo leiki og tapa einum og sitja þeir í 6. sæti í 2. deildinni. Næstu tveir leikir hjá þeim eru helgina 22. og 23. október á móti Grindavík.
Ungmennaflokkur Tindastóls spilaði á móti Hraunamönnum/Laugdælir á laugardeginum á Flúðum og unnu þeir leikinn 86-91. Eru þeir núna búnir að spila fimm leiki og vinna þá alla og sitja í 1. sæti í sínum riðli. Liðið skipa þeir Atli, Brynjar, Eyþór Lár, Georgi, Ragnar, Orri og Veigar. Feykir hafði sambandi við Kalvin Lewis þjálfara liðsins sem hafði þetta að segja eftir leikinn:
„Unglingaflokkurinn hefur lagt á sig gríðarlega vinnu það sem af er tímabilinu til að ná árangri í leikjum sínum. Hver leikmaður hefur lagt mikið á sig, sýnt mikla ástríðu til að gefa liðinu þá orku sem þarf til að sýna okkar bestu hliðar. Í síðasta leik okkar voru samheldnin með besta móti. Við áttum erfiðan fyrri hálfleik og vorum undir í hálfleik en okkur tókst að snúa bökum saman til að sigrast á áskoruninni – saman sem lið. Við náðum að vinna leikinn í lokin. Ég er stoltur af hverjum og einum af strákunum og öllu sem þeir koma með til liðsins. Í framhaldinu horfum við til þess að verða sterkari og sterkari og við stefnum að því að gera það saman. Það verða fleiri áskoranir á leiðinni en ég hef fulla trú á strákunum okkar og þeir treysta hvor öðrum. Við munum halda áfram að gera okkar besta og stefnum á að eiga frábært tímabil saman“.
Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.