Sigur í fyrsta leik hjá Kormáki/Hvöt

Lið Kormáks/Hvatar spilaði fyrsta leik sinn í 3. deildinni í dag en þá heimsóttu Húnvetningar lið ÍH í Skessuhöll Hafnfirðinga. Báðum liðum var spáð einu af fjórum neðstu sætum deildarinnar og því gott veganesti inn í sumarið að næla í sigur. Það tókst lið Kormáks/Hvatar en lokatölur urðu 1-2 og þrjú stig því kominn í sarpinn.

Það var Ismael Moussa Yann Trevor sem gerði fyrsa markið fyrir gestina strax á sjöundu mínútu. Heimamenn lögðust þó ekkert niður fyrir liði Húnvetninga því Arnar Sigþórsson jafnaði metin á 20. mínútu. Staðan í hálfleik 1-1 en líkt og í fyrri hálfleik þá byrjuðu gestirnir síðari hálfleik vel því Goran Potkozarac kom þeim yfir á 55. mínútu og fleiri urðu mörkin ekki.

Fín byrjun Húnvetninga og hver veit nema liðið komi skemmtilega á óvart í sumar líkt og í fyrra. Þeir eru svolítið óræð stærð þar sem leikmenn eru að tínast til æfinga fram á síðustu stundu. Í spá þjálfara liðanna sem skipa 3. deildina er liði Víðis Garði spáð efsta sæti en Kára frá Akranesi öðru sæti. Þar á eftir koma lið Magna á Grenivík og Augnablik úr Kópavogi.

Lið Kormáks/Hvatar heimsækir einmitt Viði á Nesfisk-völlinn í næstu umferð sem fer fram næstkomandi laugardag. Húnvetningar spila síðan heimaleik á Króknum í þriðju umferð en þá kemur lið Elliða í heimsókn úr Árbænum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir