Sannfærandi sigur Stólanna á Hömrunum
Stelpurnar í meistaraflokki Tindastóls tóku hressilega á móti Hömrunum frá Akureyri í gærkvöldi og sýndu enga gestrisni í leiknum sem fram fór á Sauðárkróksvelli í kaldri Skarðagolunni. Stólarnir voru betri allan tímann og höfðu leikinn í höndum sér enda fór svo að gestirnir þurftu að hirða boltann þrisvar úr markinu.
Þrátt fyrir að leika á móti golunni var strax ljóst að heimastúlkur voru líklegri til að láta að sér kveða í leiknum enda var ekki liðinn nema um 9 mínútur þegar Hugrún Pálsdóttir skoraði laglegt mark eftir góða sendingu Hrafnhildar Björnsdóttur inn fyrir vörn gestanna. Afgreiðslan hnitmiðuð og markmaður átti ekki séns á að verja. 1 – 0 og allt að gerast.
Skömmu síðar munaði litlu að Kolbrún Ósk næði að bæta við marki er hún náði boltanum af varnarmanni Hamranna rétt utan vítateigs lék inn í teig og kom sér í gott færi en boltinn í utanverða stöngina og aftur fyrir endalínu. Vel gert hjá Kolbrúnu sem átti mjög góðan leik og plataði margar upp úr skónum í vörn andstæðinganna. Þrátt fyrir nokkur góð færi í fyrri hálfleik fór boltinn ekki í net Hamranna fyrr en í lokin þegar Hugrún hamraði boltanum í annað sinn í markið en því miður var hún dæmd rangstæð og því stóð markið ekki.
Seinni hálfleikur var rétt hafinn þegar Hrafnhildur Björnsdóttir fékk boltann vel utan vítateigs og lét vaða á markið og sveif hann yfir markmann Hamranna sem kom engum vörnum við. Virkilega flott mark og greinilegt að Stólarnir ætluðu sér sigur í leiknum enda fór það svo að seinni hálfleikurinn var algjör einstefna Stólanna að marki gestanna sem varla áttu skot hvað þá færi á að jafna. Flestir þeir boltar sem Ana Lucia, markmaður Stólanna fékk í hendurnar komu eftir sendingar frá samherjum og þurfti hún aðallega að passa það að henni yrði ekki kalt af hreyfingarleysi.
Um 10 mínútum eftir mark Hrafnhildar bætti hún við öðru marki sínu og þriðja marki Tindastóls þegar hún tók aukaspyrnu vel utan vítateigs eftir að Kolbrún hafði verið felld eftir enn eitt hlaup hennar upp völlinn. Hrafnhildur ákvað að láta vaða á markið enda með blessaða goluna með sér og uppskar laglegt mark eins og áður sagði og staðan orðin 3-0.
Áfram héldu heimastúlkur að herja á mark gestanna og mátti litlu muna að Guðrún Jenný Ágústdóttir næði að bæta við marki eftir gott langskot en markmaður Hamranna gerði vel og varði fast skotið. Þá var komið að Ólínu Sif Einarsdóttur að ógna marki gestanna er hún tók aukaspyrnu langt utan að velli og stefndi í markið en markmaður Hamranna, Sara Mjöll Jóhannsdóttir, náði að slá boltann út í teiginn á síðustu stundu og eftir nokkurt þóf náðu gestirnir að koma boltanum í burtu. Um mínútu síðar varð endurtekning þar sem Ólína tók aukaspyrnu á svipuðum stað átti gott skot sem Sara Mjöll náði að verja og í þetta sinn að halda boltanum. Fátt markvert gerðist það sem eftir lifði leiks sem endaði með sigri Tindastóls 3-0.
Með sigrinum eru Stólastúlkurnar komnar með 10 stig og söxuðu á forskot Hamranna sem sitja í öðru sæti með 12 stig eftir 5 leiki. Á toppnum trónir Völsungur taplaus með 18 stig en hefur spilað einum leik fleira. Næsti leikur Stólastúlkna verður háður laugardaginn 11. júlí þegar neðsta lið riðilsins, Höttur frá Egilsstöðum, kemur í heimsókn. Óhætt er að hvetja alla til á kíkja á völlinn og fylgjast með stelpunum okkar leika flottan fótbolta.
Áfram Tindastóll!
Hér má sjá stöðuna í deildinni.
/PF
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.