Sandgerðingar sóttu gull í greipar Húnvetninga
Húnvetningar léku annan leik sinn í 2. deildinni í knattspyrnu í gær og var leikið á Dalvík þar sem Sauðárkróksvöllur er ekki í lagi. Ekki reyndist þessi flutningur yfir í Eyjafjörð liði Kormáks/Hvatar happadrjúgur því lið Reynis hafði betur í leiknum og fór heim í Sandgerði með þau þrjú stig sem voru til skiptanna. Lokatölur 1-3.
Það voru fínar aðstæður á Dalvík þegar leikurinn fór fram. Fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós á 20. mínútu en þá kom Sindri Þór Guðmundsson gestunum yfir. Atli Þór Sindrason jafnaði metin á 29. mínútu og gerði þar með fyrsta mark Kormáks/Hvatar í 2. deild. Ekki hélst staðan jöfn fram að hléi því Kristófer Páll Viðarsson kom gestunum í forystu á móralskt góðum tíma fyrir þá, á annarri mínútu uppbótartíma.
Hubert Rafal Kotus gerði þriðja mark Reynis á 58. mínútu með glæsimarki úr aukaspyrnu og þrátt fyrir harðar sóknir heimamenn reyndist þeim ómögulegt að koma boltanum í mark gestanna að nýju. Sigurinn því Sandgerðinga og Húnvetningar þurfa eitthvað að bíða enn eftir fyrstu stigunum í annari deild.
Ekki er lið Kormáks/Hvatar þó í fallsæti, þrátt fyrir töp í fyrstu tveimur umferðunum, því hin norðanliðin í 2. deild, Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Völsungur Húsavík eru í 11. og 12. sæti á verri markatölu. Næsti leikur Húnvetninga er einmitt gegn liði KF og á að öllu óbreyttu að fara fram á Ólafsfjarðarvelli næstkomandi föstudagskvöld og hefst kl. 19:15.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.