Risastór eins stigs sigur á Hlíðarenda
Lið Vals og Tindastóls mættust í kvöld á troðfullum Hlíðarenda í fyrsta leik liðanna í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn. Þrátt fyrir að Valsmenn séu ríkjandi Íslandsmeistarar, bikarmeistarar og deildarmeistarar virðast flestir spá Stólunum sigri í rimmunni en lið Tindastóls hefur verið sannfærandi og kraftmikið það sem af er úrslitakeppninnar á meðan Valsvélin hefur hikstað. Stólarnir voru sterkara liðið lengstum í kvöld og virtust ætla að sigla heim öruggum sigri, voru 19 stigum yfir þegar fimm mínútur voru eftir, en þá sýndu Valsmenn af hverju þeir eru meistarar og nöguðu muninn niður í þrjú stig þegar hálf mínúta var eftir. Keyshawn sýndi stáltaugar á vítalínunni í lokin og eftir að stuðningsmenn Stólanna höfðu haldið niðri í sér andanum í um tíu mínútur þá gátu þeir að lokum fagnað eins stigs sigri. Lokatölur 82-83 fyrir Tindastól.
Það var nokkuð ljóst í upphafi leiks að það var pínu skjálfti í báðum liðum. Það gekk í það minnsta illa að setja niður 3ja stiga skotin. Taiwo var þó ekki feiminn við körfuna og gerði átta fyrstu stig Stólanna sem leiddu, 2-8, snemma leiks. Heimamenn jöfnuðu en Stólarnir héldu frumkvæðinu og leiddu að loknum fyrsta leikhluta, 15-20. Tindastólsmenn gerðu vel í að stoppa Kára Jóns og Pablo Bertone en það voru helst Kristó og Pavlovic sem gerðu sig gildandi í sóknarleik Vals. Stólarnir komust í 21-30 eftir rúmlega 14 mínútna leik en Valsmenn gerðu næstu sex stig og leikurinn í jafnvægi. Síðustu fjórar mínútur hálfleiksins gerðu Stólarnir hins vegar 19 stig á meðan Valur gerði þrjú. Þar munaði hvað mest um tvo þrista frá Pétri á síðustu mínútunni og Stólarnir því með 19 stiga forystu og stemningin Stólamegin á Hlíðarenda vægast sagt bullgóð. Staðan 30-49.
Valsmenn hertu varnarleikinn í síðari hálfleik en sóknarleikur þeirra var ansi stirður þannig að þrátt fyrir ágætt framlag í vörninni þá gekk þeim lítið að saxa á forskot Tindastóls. Þeir minnkuðu þó muninn í tólf stig, 39-51, en náðu ekki að fylgja þeim kafla eftir og eftir þrist frá Arnari þegar 27 mínútur voru liðnar, hans fyrstu stig í leiknum, var munurinn orðinn átján stig. Arnar bætti við einni kreisíkörfu í kjölfarið og víti að auki og kom forystu Stólanna yfir tuttugu stigin í fyrsta sinn í leiknum. Valsmenn löguðu stöðun áður en þriðji leikhluti var úti og staðan 45-63.
Munurinn hélst í kringum átján stigin fyrstu mínútur fjórða leikhluta. Kristó kom muninum niður í fjórtán stig þegar fjórar mínútur voru liðnar en þristur frá Geks þegar fimm mínútur voru eftir virtist naglinn í kistu Valsmanna, staðan 58-77 og munurinn 19 stig. Pétur og Keyshawn fengu hvíld þegar fjórar mínútur voru eftir og sóknarleikur Stólanna riðlaðist og það hægðist á honum. Skyndilega fóru flest skot Valsmanna að detta, sama úr hversu ómögulegum færum þau voru tekin. Við tóku æsilegar mínútur þar sem munurinn fór sífellt minnkandi. Valsmenn urðu þó að taka upp á því að senda Stólana á vítalínuna til að tíminn hlypi ekki frá þeim og stóla svo á að setja niður þrista og stóla á að vítin færu forgörðum hjá gestunum. Keyshawn brást þó ekki bogalistin á vítalínunni og setti svalur niður fjögur vítaskot á síðustu hálfu mínútunni, Heimamenn svöruðu að bragði með þristum en tíminn dugði þeim ekki og Stólarnir fögnuðu risavöxnum eins stigs sigri.
Leikurinn var að mörgu leyti sérstakur. Valsmenn áttu sína fyrstu stoðsendingu í leiknum eftir korter og þeir settu engan þrist í fyrri hálfleik þrátt fyrir ellefu tilraunir. Þeir settu níu þrista í síðari hálfleik og þar fór Frank Booker fremstur, hitti úr sex. Arnari gekk ekkert að skora fyrir Stólana og hans fyrstu stig komu þegar 13 mínútur voru eftir af leiknum. Enginn leikmaður Tindastóls var með meira en 20 framlagspunkta en bæði lið voru með 87 í framlag. Þá má reikna með hörkueinvígi.
Taiwo og Keyshawn voru stigahæstir í liði Tindastóls með 20 stig hvor, Pétur var með 12 stig, Geks tíu og Drungilas og Arnar níu hvor. Í liði Vals voru Pavlovic og Kristó með 20 stig og þeir voru báðir með átta fráköst.
Annar leikur liðanna verður í Síkinu á þriðjudaginn. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.