Pétur hlakkar til að sjá fulla höll af vínrauðum treyjum
Jú, það er úrslitaleikur í VÍS bikarnum á morgun og Stólarnir verða þar þrátt fyrir hálfgerða þrautagöngu í vetur. Mótherjarnir eru lið Keflavíkur sem hafa verið ansi sterkir upp á síðkastið og sitja í 3.-4. sæti Subway-deildarinnar þegar tveimur umferðum er ólokið.
Feykir tók púlsinn á Pétri Rúnari Birgissyni, fyrirliða Tindastóls, og spurði hvort honum finndist Stólarnir vera að ná sér á strik eftir góðan leik gegn liði Álftaness í undanúrslitum VÍS bikarsins. „Það má segja að við höfum fundið taktinn svolítið í síðasta leik en það er bara einn leikur. Við erum enn að vinna í okkar leik og já, ég trúi því að við verðum bara betri og betri eftir því sem líður á núna.“
Hvernig leggst í þig að mæta liði Keflavíkur? „Bara mjög vel, þeir eru með hörkulið og held ég að þetta verði bara mikið fjör. Áhorfendur mega búast við hröðum og skemmtilegum leik sem mun vera spennandi fram að lokaflauti,“ segir fyrirliðinn og tekur fram að hann þakki stuðninginn gegnum súrt og sætt. „Hann er mikils metinn. Ég hlakka til að sjá fulla höll af vínrauðum flíkum. Koma Stólar!!“
Leikurinn hefst kl. 16:00. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.