Pavel áfram á Sauðárkróki
Gengið hefur verið frá samkomulagi um að Pavel Ermolinskij, sem nýlega leiddi Tindastól til frækilegs sigurs í Íslandsmótinu í körfubolta, verði áfram hjá félaginu. Um það var gerður samningur til tveggja ára og mun Pavel til viðbótar við meistaraflokkinn og Subway deildina einnig aðstoða með ýmsum hætti við unglingastarf Tindastóls bæði í karla og kvennaflokkum.
Pavel var ráðinn þjálfari Tindastóls á miðju síðasta keppnistímabili og var það frumraun hans á því sviði. Nýi samningurinn var að frumkvæði Pavels undirritaður í fiskvinnslu FISK Seafood að viðstöddum miklum fjölda starfsfólks sem flest hefur reyndar líka fjölmennt á áhorfendapallana í Síkinu síðustu vikurnar. Á meðfylgjandi mynd undirrita þeir Pavel og Dagur Þór Baldvinsson samninginn með hluta starfsfólksins í bakgrunni.
Pavel Ermolinskij: Síðustu mánuðir hafa auðvitað verið mikið ævintýri. Ég stökk á þetta tækifæri vegna þess að ég vissi í fyrsta lagi um þessa sterku umgjörð Tindastóls í körfuboltanum og líka vegna þess að mig langaði að spreyta mig á því verkefni að vera þjálfari og leiðtogi utan vallar. Þetta var ákveðin prufukeyrsla fyrir mig; ég vildi vita hvort verkefni og ábyrgð þjálfarans hentuðu mér og það kom mér svo sem ekkert á óvart hvað ég nýt mín í þessu hlutverki. Og það kom mér heldur ekki á óvart hve vel var tekið á móti mér og allri fjölskyldunni. Sauðárkrókur er stórkostlegur staður að vera á og við hlökkum til þess að fá að kynnast íbúunum og bæjarlífinu enn betur á næstu árum.
Dagur Þór Baldvinsson, formaður körfuknattleiksdeildar Tindastóls: Við erum auðvitað himinlifandi yfir því að hafa endurnýjað samninginn við Pavel. Samstarfið okkar í vetur hefur á allan hátt verið til fyrirmyndar og á milli okkar hefur skapast mikið traust. Pavel er ósvikinn körfuboltaheili, sem í svo mörg ár sýndi ótvíræða leiðtogahæfileika sína sem leikmaður. Nú hefur hann sannað það rækilega í fyrstu tilraun að þau verðmæti nýtast ekki síður í þjálfarastarfinu. Ég tel líka mikinn feng að því að Tindastóll fái notið góðs af leiðsögn hans í yngri flokka starfinu. Þar er efniviðurinn okkar og mikilvægi unglingastarfsins fyrir heilbrigða sál í hraustum líkama verður aldrei ofmetið.
/Fréttatilkynning
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.