Öruggur sigur Stólastúlkna á liði Fylkis
Lið Tindastóls og Fylkis mættust í fjórðu umferð Bestu deildar kvenna í dag en leikið var á Greifavellinum á Akureyri vegna vallarvesenis á Króknum. Ekki virtist Akureyrarferð sitja í Stólastúlkum eða það að spila á Greifavellinum – enda hver elskar ekki Greifann? Fylkir kom upp úr Lengjudeildinni síðasta haust og hafði farið vel af stað á tímabilinu, höfðu ekki tapað leik. En þær lutu í Greifagras í dag og máttu þola 3-0 tap gegn skemmtilegu liði Tindastóls.
Byrjunarlið Tindastóls var skipað þeim Monicu, Bryndísi Rut, Gwen, Löru Margréti, Maríu Dögg, Laufeyju Hörpu, Anniku, Gabbie, Elísu Bríeti, Birgittu Rún og Jordyn. Hugrún, Aldís og Saga Ísey kom svo með ferka fætur inn í liðið á lokakaflanum.
Það voru kjöraðstæður fyrir norðan og sögusagnir um endalaust gott veður á Akureyri reyndust á rökum reystar – í dag að minnsta kosti. Lið Tindastóls fór vel af stað í leiknum, pressaði gestina vel og kom þeim í bobba. Fyrsta mark leiksins gerði Elísa Bríet á 12. mínútu en það var fyrsta mark hennar í Bestu deildinni. Pressa Stólanna varð til þess að Birgitta Rún vann boltann á miðjum vallarhelmingi Fylkis og smellti honum strax inn fyrir vörnina á vinkonu sína frá Skagaströnd sem afgreiddi færið af mikilli yfirvegun. Að þessar stelpur séu 16 ára er bara brandari. Þegar leið á hálfleikinn skapaði lið Tindastóls sér fleiri færi en það var ekki fyrr en á 44. mínútu sem annað markið leit dagsins ljós. Tinna í marki Fylkis kýldi þá boltann frá marki eftir fyrirgjöf Laufeyjar Hörpu en beint í hlaupaleið Maríu Daggar sem smellti boltanum í markið. Staðan 2-0 í hálfleik.
Fylkir var meira með boltann í síðari hálfleik og lið Tindastóls varðist aftar og reyndi að beita skyndisóknum. Sigurinn var loks tryggður á 85. mínútu þegar Jordyn Rhodes flikkaði útsparki frá Monicu inn fyrir vörn Fylkis þar sem Laufey komst á auðan sjó og renndi boltanum framhjá Tinnu og í markið. Hvammstangastúlkan Saga Ísey, sömuleiðis 16 ára, var síðan hársbreidd frá því að skora sitt fyrsta mark í Bestu deildinni í uppbótartíma, þá nýlega komin inn á en setti boltann framhjá í ágætu færi.
Í heildina frábær sigur og nú er lið Tindastóls skyndilega komið í fjórða sæti Bestu deildarinnar eftir tvo sigurleiki í kjölfar tveggja tapleikja. Liðið er að spila fínan fótbolta, heldur boltanum betur en oftast áður og leikmenn óhræddir við að skella í þríhyrningaspil og fleira dúllídúll. Í dag var liðið bæði öflugt fram á við sem og í vörn og það veit á gott. Næsti leikur er gegn meisturum Vals á Hlíðarenda en þangað hafa Stólastúlkur aldrei sótt gull og hvað þá stig. Því má alveg breyta.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.