Ómar Bragi búinn að skipuleggja mót UMFÍ í 20 ár
Unglingalandsmóti UMFÍ lauk í Borgarnesi í kvöld og samkvæmt frétt á vef UMFÍ var framkvæmd mótsins framúrskarandi og samvinna allra sem að því komu með eindæmum góð. Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, hélt tölu í móttöku með forsetahjónunum, sambandsaðilum UMFÍ, heiðursfélögum og fleirum frá sveitarfélaginu Borgarbyggð, og þar bauð hann Króksaranum Ómari Braga Stefánssyni, sem er framkvæmdastjóri móta UMFÍ, að taka við þakklætisvotti en Ómar Bragi hefur skipulagt mót UMFÍ í 20 ár.
Fyrsta Unglingalandsmótið í umsjá Ómar Braga var árið 2004 en þá var það á Sauðárkróki. Landsmót UMFÍ var sömuleiðis haldið á Króknum sama ár.
Jóhann Steinar sagði frá því í ávarpi sínu að óneitanlega hafi UMFÍ og mótshaldarar staðið frammi fyrir miklum áskorunum í Borgarnesi því rigning sett mark sitt á tjaldsvæðið. Fólk hafi lagst á eitt að leysa úr öllum vanda og yfirstíga hindranir á vegferðinni.
„Það hefur svo sannarlega tekist að mestu leyti og endurspeglar þann ungmennafélagsanda sem við leitum eftir. Við sjáum það á brosum barna og ungmenna, foreldrum og forráðafólki að mótsgestum líður vel og öll skemmta sér saman með þátttöku og lýðheilsu að leiðarljósi,“ sagði Jóhann Steinar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.