ÓB-mót Tindastóls - Rúmlega 500 stelpur munu leika knattspyrnu á Sauðárkróki um helgina

Frá mótinu í fyrra. Mynd: ÓAB
Frá mótinu í fyrra. Mynd: ÓAB

Hið árlega stúlknamót Tindastóls, ÓB-mótið, fer fram um helgina. Mótið er ætlað stúlkum úr 6. flokki og er leikinn fimm manna bolti á laugardegi og sunnudegi.

Fjöldi liða og keppenda um næstu helgi er sambærilegur og hefur verið síðustu ár en von er á um tuttugu liðum víðsvegar af á landinu og rúmlega fimm hundruð keppendum svo búast við má þónokkurri fjölgun í bænum um helgina. Fyrstu leikirnir hefjast um klukkan níu á laugardagsmorgun og verður mótinu lokið seinnipartinn á sunnudaginn, í tæka tíð fyrir heimaleik meistaraflokks karla.

Að sögn Lee Ann Maginnis, mótstjóra ÓB-mótsins, verður mótið með svipuðum hætti og síðustu ár en bryddað verður upp á að minnsta kosti einni nýjung þetta árið. ,,Tekin var ákvörðun um það að breyta kvöldvökunni sem haldin hefur verið í íþróttahúsinu síðustu ár. Í stað þess verður sett upp svið við Aðalgötuna þar sem hinir ýmsu listamenn koma fram, bæði heimamenn og utanbæjarfólk, og verður skemmtunin opin öllum þeim sem hafa áhuga á að kíkja á svæðið. Verslanir og veitingastaðir verða opnir og nóg um að vera fyrir alla.“

Skipulagningin á mótinu hefur staðið yfir í þónokkurn tíma og fjölmargar hendur sem kom að einu móti.

,,Við erum mjög heppin með það að fjölmargir reynsluboltar eru okkur innan handar við skipulagninguna, foreldrar sem og aðrir bæjarbúar. Það er mjög mikilvægt fyrir mótið að hafa fjöldann allan af sjálfboðaliðum til að gera upplifun mótsgesta sem besta. Svo má ekki gleyma því að mótahaldið er ein af stærstu fjáröflunum fyrir barna- og unglingaráð knattspyrnudeildarinnar.

Fjöldinn allur af verkefnum fylgja einum móti en þar má m.a. nefna afgreiðslufólk í sjoppunni, dómgæsla, gæsla í skólahúsnæðum og vinna við matmálstímanna þar sem oft er mikið fjör. Manna þarf yfir 150 vaktir yfir mótshelgina og treystir barna- og unglingaráðið á foreldra iðkenda, iðkendurna sjálfa, leikmenn meistaraflokkanna og bara alla þá sem vilja aðstoða við mótahaldið. Ef það er einhver sem les þetta sem á eftir að skrá sig á vakt þá má bara endilega hafa samband við mig eða aðra úr knattspyrnudeildinni.“

 

,,Nú er bara að krossa putta og vona að veðurguðirnir verði til friðs“ segir Lee Ann að lokum.


Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir