ÓB-mót Tindastóls haldið 22. og 23. júní á Króknum

Það verður líf og fjör á Króknum helgina 22. og 23. júní þegar ÓB-mótið verður haldið. Mótið er ætlað stúlkum úr 6. flokki og segir Adam Smári, formaður knattspyrnudeildar Tindastóls, að þetta verði stærsta ÓB-mótið sem haldið hefur verið á Króknum. Í fyrra var fjöldi keppenda um 550 talsins en í ár verða þeir yfir 700 talsins og koma víðs vegar af landinu eða frá 23 félögum. Það má því búast við þónokkurri fjölgun í bænum þessa helgi. Keppt verður á þrettán völlum í ár en fyrstu leikirnir hefjast um klukkan níu á laugardagsmorgninum og verður mótinu lokið seinnipartinn á sunnudeginum. 

Í fyrra var tekin upp sú nýjung að kvöldvakan sem venjulega fór fram í íþróttahúsinu færðist yfir í gamla bæinn, nánar tiltekið við Aðalgötuna, þar sem hinir ýmsu listamenn komu og héldu tónleika fyrir gesti og gangandi. Í ár verður engin undantekning og mætir Skagfirska hljómsveitin Danssveit Dósa og bandið VÆB til að halda uppi fjörinu fyrir bæði mótsgesti og íbúa Skagafjarðar.

Skipulagningin á mótinu hefur staðið yfir í þónokkurn tíma og fjölmargar hendur komið að en mörg verkefni eru enn eftir. Seinnipartinn í dag mun Barna- og unglingaráðið gefa út skráningarform þar sem foreldrar barna sem iðka fótbolta hjá Tindastól geta skráð sig á vaktir við hin ýmsu verk eins og t.d. afgreiðslu í sjoppunni, dómgæslu, gæslu í skólahúsnæðum og vinnu við matmálstímanna þar sem oft er mikið fjör.

Manna þarf yfir 150 vaktir yfir mótshelgina og treystir barna- og unglingaráðið á foreldra iðkenda, iðkendurna sjálfa, leikmenn meistaraflokkanna og bara alla þá sem vilja aðstoða við mótahaldið að skrá sig á vaktir svo upplifun mótsgesta verði sem best. Þess má geta að þetta mót og Króksmótið, sem haldið er í ágúst, eru stærstu fjáröflunarleiðir barna- og unglingaráðs knattspyrnudeildarinnar. 

Nú er bara að krossa putta og vona að veðurguðirnir verði til friðs um næstu helgi. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir