Norðurlandsúrvalið fór sigurferð til Danmerkur
Feykir sagði frá því í lok janúar að sex knattspyrnustúlkur af Norðurlandi vestra voru valdar í Norðurlandsúrvalið sem er skipað stúlkum fæddum 2007-08. Nú um mánaðarmótin fór hópurinn í frábæra keppnisferð til Danmerkur þar sem þær spiluðu við FC Nordsjælland og Brøndby sem eru með frábært yngri flokka starf og hafa á að skipa sterkum liðum sem talin eru með þeim bestu í þessum aldursflokki í Danmörku. Norðurlandsúrvalið gerði sér lítið fyrir og vann báða leikina.
Norðurlandsúrvalið er skipað efnilegustu knattspyrnustelpunum af Norðurlandi nú í vetur og hafa þær nokkrum sinnum komið saman og æft fyrir framan þjálfara KSÍ. Rúsinan í pylsuenda vetrarstarfsins var síðan að fara til Danmerkur og spila tvo hörkuleiki.
Í 20 manna hópnum voru Króksararnir Sigríður Hrafnhildur Stefánsdóttir (Lilla), Hulda Þórey Halldósrdóttir, Katla Guðný Magnúsdóttir, Blönduósingurinn Elísabet Nótt Guðmundsdóttir og síðan Skagstrendingarnir Birgitta Rún Finnbogadóttir og Elísa Bríet Björnsdóttir. Allar spila stelpurnar saman með sameiginlegum liðum Tindastóls/Hvatar/Kormáks og þær hafa einnig fengið að finna smjörþefinn af því að spila með Bestu deildar liði Tindastóls í undirbúningsleikjum Stólastúlkna nú í vetur. Þjálfarar í ferðinni voru. Ágústa Kristinsdóttir, yfirþjálfari Þór/KA, og Þórólfur Sveinsson (Tóti) sem er yfirþjálfari yngri flokka Tindastóls.
Í frétt á síðu stuðningsmanna knattspyrudeildar Tindastóls segir að stelpurnar spiluðu tvo leiki og unnu þá báða. Fyrst léku þær gegn FC Nordsjælland og höfðu 1-0 sigur þar sem Katla Guðný lagði upp sigurmarkið sem Elísa Bríet gerði.Leikinn gegn Brøndby vann Norðurlandsúrvalið 5-1. Mörkin í þeim leik skoruðu Birgitta Rún eftir stoðsendingu frá Kötlu Guðný, Rebekka Sunna skoraði eftir horn frá Hildi, Hildur Anna skoraði glæsilegt mark af 30 metra færi, Katla Guðný skoraði eftir sendingu frá Hildi og Emelía Blöndal skoraði eftir undirbúning frá Kötlu Bjarnadóttir.
Samkvæmt upplýsingum Feykis gisti hópurinn á Danhostel og eins og í öllum meiriháttar heimsóknum til Danmerkur var kíkt á Strikið og mollið sígilda, Fisketorvet, og þá var slegið upp pubquiz-keppni eitt kvöldið. „Okkar stelpur voru mjög flottar og áttu stóran þátt í góðum árangri á vellinum og einnig voru þær góðir liðsmenn utan vallar,“ segir Tóti þjálfari hæstánægður með stelpurnar sex sem fóru héðan af Norðurlandi vestra.
„Við náðum allar vel saman“
Feykir hafði samband við Lillu, sem er markvörður eins og hún á kyn til, og spurði til að byrja með hvort það hefði verið gaman að spila með Norðurlandsúrvalinu. „Já, það var ótrúlega gaman, þetta var lika svo gott tækifæri til að fá að spila með svona góðum stelpum. Andinn í hópnum var mjög góður, við náðum allar vel saman.“
Hvað stóð upp úr í ferðinni? „Það sem var eftirminnilegast voru örugglega leikirnir tveir en þetta var allt saman mjög skemmtilegt.“
Hver er svo stefnan í sumar með sameiginlegum liðum Tindastóls/Hvatar/Kormáks? „Stefnan í sumar er náttúrulega að reyna að vinna alla leikina okkar og reyna að æfa meira saman,“ segir Lilla að lokum.
Við óskum stelpunum öllum til hamingju með frábæra ferð og hlökkum mikið til að fylgjast áfram með þeim í framtíðinni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.