Norðurlandsmeistaramót í Skeet á Sauðárkróki
Norðurlandsmeistaramótið í Skeet verður haldið á skotsvæði Skotfélagsins Ósmanns á Sauðárkróki en mótshald er í höndum Skotfélagsins Markviss frá Blönduósi. „Mótið verður öllum opið og gildir til flokka og meta, og viljum við hvetja unga sem aldna til að mæta og gera sér glaðan dag á einu glæsilegasta skotsvæði landsins,“ segir á viðburðarsíðu mótsins á Facebook.
Á síðunni segir að keppnisfyrirkomulag verður með þeim hætti að eftir þrjár umferðir verður keppendum skipt í A og B flokk eftir skori. Eftir fimm umferðir verður ljóst hverjir hampa Norðurlandsmeistara titlum karla og kvenna. Sex efstu keppendur í hvorum flokki skjóta svo til úrslita um sigurinn á NLM-OPEN 2015.
Á mótinu verða afhentir í fyrsta sinn nýir farandbikarar til Norðurlandsmeistara. „Það markar einnig viss tímamót að nú verður í fyrsta sinn krýndur Norðurlandsmeistari í kvennaflokk og vonumst við til að það eigi eftir að stuðla að frekari þátttöku kvenna í greininni hér norðan heiða,“ segir á síðunni.
Skráningu á mótið lýkur á miðnætti á morgun, þriðjudaginn 11. ágúst, og skulu þær berast á kronos@simnet.is.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.