Njarðvíkingar hnykluðu vöðvana í Ljónagryfjunni
Þriðji leikur í rimmu Njarðvíkur og Tindastóls fór fram í gær. Stólarnir voru 2-0 yfir í einvíginu og hefðu með sigri getað sópað Loga og félögum í sumarfrí en fengu í staðinn á baukinn. Njarðvíkingar höfðu tögl og haldir nánast frá fyrstu til síðustu mínútu en það var aðeins í upphafi annars leikhluta sem Stólarnir klóruðu í bakkann áður en heimamenn tóku yfir á ný. Lokatölur 109-78 og næsti leikur verður í Síkinu á laugardag.
Það er sjaldnast vænlegt til árangurs að gefa mótherjanum gott forskot í byrjun leikja og það fengu Njarðvíkingar í gær, voru komnir í 17-1 eftir fimm mínútna leik og rétt eins og í fyrsta leiknum, þar sem Stólarnir fylltust eldmóði og sjálfstrausti við svipaðar aðstæður og virtist fyrirmunað að hitta ekki körfuna, þá logaði á öllum heimamönnum í Ljónagryfjunni. Stólarnir löguðu stöðuna aðeins enda ótækt að enda leikinn með eitt stig. Að loknum fyrsta leikhluta var staðan 27-18 og gestirnir hófu annan leikhluta af krafti. Tveir þristar frá Pétri hjálpuðu til við að koma muninum niður í fimm stig, 33-28, og þegar leikhlutinn var hálfnaður var munurinn þrjú stig, 35-33, eftir þrist frá Geks og tvist frá Arnari. Þá tóku heimamenn völdin á ný og leiddu með 15 stigum í hálfleik. Staðan 53-38.
Lið Tindastóls gerði aldrei tilkall til þess að minnka bilið í síðari hálfleik og Njarðvíkingar sigldu heim góðum sigri og komu sér inn í einvígið á ný. Enginn leikmanna Tindastóls átti toppleik í gær þó Raggi hafi reyndar sett í 13 stig á 18 mínútum. Keyshawn var stigahæstur með 16 stig, næststigahæstur var Raggi, þá Geks með 11 stig og Arnar 10. Fimm leikmenn í liði heimamanna skoruðu 13 stig eða meira en Haukur Helgi var frábær að þessu sinni og gerði 20 stig.
Í viðtali við Stöð2Sport að leik loknum sagði Pavel, þjálfari Tindastóls, að Njarðvíkingar hefðu byrjað leikinn vel og héldu það út. „Þeir komust á bragðið og voru að hitta vel og spila góða vörn. Eins og við vitum sjálfir í okkar liði að þá er miklu auðveldara að skjóta boltanum og spila góða vörn þegar þú ert 8, 10 eða 15 stigum yfir. Þeir bara náðu of fljótt í það og voru bara frábærir í kvöld,. Hann bætti við að of margir í liði Njarðvíkur hafi hitt á sinn leik. „Við reynum að taka burt það besta úr öðrum liðum. Það besta í Njarðvíkurliðinu er að þeir eru margir góðir í körfubolta og í kvöld þá voru allir frábærir. Við þurfum að finna leiðir til að leyfa þeim nokkrum að vera góðum en ekki öllum.“
Þá er rétt að nefna að venju samkvæmt fengu Stólarnir frábæran stuðning úr stúkunni og þrátt fyrir stórt tap var sungið og trallað löngu eftir að leiknum lauk. Magnað. Miðasala er þegar hafin á Stubb vegna leiks fjögur sem verður í Síkinu á laugardaginn 29. apríl og hefst kl. 19:15 – semsagt leikurinn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.