Njarðvík var það, heillin

Baráttan heldur áfram í körfunni. MYND: SIGURÐUR INGI
Baráttan heldur áfram í körfunni. MYND: SIGURÐUR INGI

Í gærkvöldi varð ljóst hvaða lið mætast í undanúrslitum Subway-deildarinnar í körfuknattleik en þá mættust Haukar og Þór Þorlákshöfn í oddaleik. Eftir að Hafnfirðingar höfðu leitt nánast allan tímann en ekki tekist að hrista ólseiga Þórsara af sér þá fór það svo að hafnfirski mótorinn hökti á lokamínútunum meðan Þórsararnir gáfu Vincent Shahid licence to kill – eða semsagt leyfi til að klára málið – sem hann og gerði. Þar með var ljóst að Tindastóll mætir liði Njarðvíkur í undanúrslitum og Þórsarar mæta Valsmönnum.

Feykir spurði Herramanninn, Króksarann og körfuboltafræðinginn Karl Jónsson, sem nú býr í Eyjafirði, hvernig honum litist á undanúrslitaviðureignirnar. „Mér líst vel á þær, held að það sé betra fyrir okkar menn að mæta Njarðvík í undanúrslitum. Njarðvík vinnur Tindastól ekki í heilli seríu, þetta fer kannski í oddaleik, kannski, en heilt yfir er Tindastólsliðið betur líkamlega tilbúið í heila seríu en Njarðvík að mínu mati,“ segir Kalli og bætir við að okkar menn þurfi að láta finna vel fyrir sér og það sé fínt að láta Valsmenn kljást við Þór.

Fyrsti leikurinn í einvíginu er nú á fimmtudaginn kl. 19:15 í Ljónagryfjuni í Njarðvík en liðin mætast síðan í öðrum leiknum sunnudagskvöld 23. apríl á sama tíma.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir