Naumt tap hjá Stólastúlkum
Stólastúlkur lutu í lægra haldi fyrir Keflavík í úrslitakeppni fyrstu deildar á Nettovellinum syðra í gær. Þetta var fyrri leikur liðanna en sá seinni fer fram á Sauðárkróksvelli nk. miðvikudag kl. 17:15.
Jesse Shugg kom Stólunum yfir á 20. mínútu og héldu forustu allt fram á þá sextugustu þegar heimastúlkan Katla María Þórðardóttir jafnaði leikinn. Jesse jók forustu Tindastóls aftur fimm mínútum síðar en aftur náðu Keflvíkingar að jafna á 77. mínútu þegar Sveindís Jane Jónsdóttir náði að setja boltann í netið. Það var svo Amber Pennybaker sem tryggði Keflavík sigurinn með marki 5 mínútum fyrir leikslok.
Arnar Skúli Atlason, þjálfari Tindastóls, sagði að um hörkuleik hafi verið að ræða. „Fyrsti alvöruleikurinn okkar í sumar þar sem við lendum í því að vita að við vinnum ekki leikinn eftir 30 mínútur. Hærra tempo en við erum vanar í okkar riðli því hann var sá yfirburðarslakasti riðillinn í 1. deild kvenna.“ Arnar Skúli segir ástæðu tapsins ekki vera vegna þess að Keflvíkingar væru betri, heldur þá að okkar lið hafi misst einbeitingu í smá stund og því refsað. Þannig sé það í úrslitakeppni þó ekki hafi verið svo í riðlakeppninni í sumar.
Feykir hvetur alla til að fjölmenna á völlinn nk.miðvikudag og styðja stelpurnar okkar til áframhaldandi veru í úrslitakeppninni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.