Mosfellingar malbikuðu yfir mátaða Stóla
Fjórðu deildar lið Tindastóls mætti þriðju deildar liði Hvíta riddarans í Fótbolta.net bikarnum í gærkvöldi en leikið var í Malbiksstöðinni að Varmá (!?). Það vantaði engin smápeð í lið Tindastóls en Dom, Domi og Konni voru fjarri góðu gamni. Eftir nokkuð trausta Sikileyjarvörn fyrstu 45 mínúturnar var markalaust að loknum fyrri hálfleik en endatafl Tindastólspilta reyndist glatað, riddarar Mosfellinga gengu á lagið og mátuðu gestina nokkuð létt. Lokatölur 4-0.
Fátt markvert gerðist í fyrri hálfleik en Alexander Aron Tómasson kom heimamönnum yfir á 50. mínútu. Það var Alvaro Cordero Marinez Corbalan sem gerði annað markið á 61. mínútu og Eiríkur Þór Bjarkason gerði þriðja markið á 73. mínútu. Haukur Hall Eyþórsson gulltryggði sigur Mosfellinga á 90. mínútu og skaut þeim endanlega áfram í þessari splunkunýju bikarkeppni neðri deildar liðanna.
Tindastólsmenn geta því geymt bikardrauma til næsta sumars og einbeitt sér að 4. deildinni. Lið Kormáks/Hvatar tók ekki þátt í keppninni – féll því ekki úr leik!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.