Mikilvægur leikur á Króknum og strákarnir tilbúnir og spenntir

Stólarnir verða í eldlínunni. MYND: SIGURÐUR INGI
Stólarnir verða í eldlínunni. MYND: SIGURÐUR INGI

„Við erum tilbúnir og spenntir; við munum þó nálgast þennan leik á sama hátt og við höfum hvern annan leik,“ segir Dominic Furness sem þjálfar karlalið Tindastóls í fótboltanum þegar Feykir hafi samband. Það er nefnilega stórleikur á morgun, laugardag, því þá mætir lið Ýmis á Krókinn en þeir Kópavogspiltar hafa trónað á toppi 4. deildarinnar lengst af sumars. Nú eru Stólarnir á toppnum en hafa leikið einum leik meira en lið Ýmis.

Leikurinn er því gríðarlega mikilvægur og gæti skipt sköpum í baráttunni um sæti í 3. deild.

Liði Tindastóls hefur gengið mjög vel í sumar, sérstaklega þó síðustu tvo mánuði, spilar flottan og skemmtilegan fótbolta og hefur til að mynda skorað 17 mörk í síðustu fjórum deildarleikjum. Hver finnst þér vera helsti munurinn á þessu sumri og því síðasta? „Við höfum alltaf haft sömu heimspeki og meginreglur í fótboltanum okkar, við viljum vera við stjórnvölinn í okkar leikjum, stjórna þeim með okkar spilamennsku og rent að aðlaga leik okkar að styrkleika og veikleika andstæðingsins. Við höfum unnið mikið í sóknarleik okkar og staðsetningu leikmanna á sóknarþriðjungi vallarins. Varðandi markaskorun þá er hún oft bara spurning um að hlutirnir smelli á síðasta þriðjungnum og klára færin sem við höfum alltaf skapað.“

Leikmaðurinn Dominic Furness virðist ekki vera í náðinni hjá þjálfaranum Dominic Furness. Hvað er að frétta?„Ég er mjög ánægður með hópinn og ég verð alltaf að setja liðið í fyrsta sæti, allir eru að toga í sömu átt, það er frábært að sjá. Við verðum að halda einbeitingu allt til enda.“

Hefur þátttaka í Fótbolta.net bikarnum haft jákvæð áhrif á liðið? „Góður árangur í bikarkeppni er alltaf góður fyrir móralinn, eykur jákvæðni og trú, sérstaklega þegar þú nærð að slá út lið í efri deildum. Þessi þátttaka og gott gengi hefur þýtt að við höfum þurft að dreifa leikjaálaginu en allir strákarnir hafa verið frábærir.“

Ertu bjartsýnn á að lið Tindastóls tryggi sér sæti í 3. deild? „Við einbeitum okkur að því að vinna leikinn um helgina. Hver sem úrslitin verða þá munum við einbeita okkur að því að vinna næsta leik o.s.frv. Næsti leikur er alltaf mikilvægastur,“ segir Dominic Furness, þjálfari Tindastóls að lokum.

Leikurinn hefst kl. 16 og nú er bara að finna regngallann og skella sér á völlinn – áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir