Miðar á leik Vals og Tindastóls tættust út
„Miðarnir hreinlega tættust út – bæði miðar gestaliðsins og okkar miðar. Þessi rimma er þannig að allir og ömmur þeirra vilja vera á svæðinu,“ sagði Valsarinn Grímur Atlason þegar Feykir spurði hvernig hefði gengið að selja miða á leikinn sem hefst í Origo-höllinni kl. 19:15 í kvöld. Raunar hafði Feykir hlerað að miðar Stólanna hefðu klárast á tveimur mínútum og því betra að gleyma sér ekki við uppvaskið eða önnur nauðsynjaverk þegar miðarnir í úrslitaeinvíginu fara í sölu.
Grímur, sem heldur utan um þessa viðburði hjá Val, hefur ekki í öllum tilfellum glatt stuðningsmenn Stólanna þegar þeir hafa mætt vígreifir og glaðbeittir á Hlíðarenda og því kannski rétt að spyrja hvort það sé ekki gaman að fá stuðningsfólk Stólanna í Origo-höllina. „Langflest stuðningsfólk Tindastóls er til fyrirmyndar þegar það mætir til okkar,“ segir Grímur. „Taka til eftir sig í stúkunum og sýna starfsfólki og sjálfboðaliðum kurteisi. Það eru alltaf einhver læti og einhverjir einstaklingar fara fram úr sér en það er algjör minnihluti.“
Hvernig ertu stemmdur þegar þessi úrslitaeinvígi eru í gangi? „Svona rimmur eru spennuþrungnar og lætin í húsinu með þeim hætti að maður getur ekki annað en hrifist með. Ég er gamalreyndur viðburðahaldari og því er ég talsvert í því hlutverki á þessum leikjum í Origo höllinni og því kannski öðruvísi spenntur en þegar ég þarf ekki að hugsa um 1000 smáatriði í tengslum við utanumhald leiksins.
Mættirðu í Síkið á síðasta leik? „Ég fór ekki í Síkið síðast en reynsla mín frá úrslitakeppninni vorið 2022 er sú að Skagfirðingar kunna betur en flestir að búa til stemmingu og viðburð. Það er greinilegt að þeir hafa hlustað vel á mig þegar ég var í sveit í Skagafirði á áttunda áratugnum.“
Hvernig heldurðu að einvígið endi og hver er spáin fyrir kvöldið? „Þetta er algjörlega 50/50 einvígi. Ósk mín er sjálfsögðu að Valur sigri og ég ætla að spá okkur sigri. Vinnum í kvöld, töpum í framlengingu í Síkinu á mánudaginn en tökum oddaleikinn með fimm stigum. Ósk eða spá – það á síðan bara eftir að koma í ljós.“
Hvað heldurðu að ráði úrslitum? „Smáatriði og spennustig. Þegar lið eru komin þetta langt og þekkja hvert annað út og inn er þetta annað hvort stöngin út eða stöngin inn.“
Það er kristaltært að bæði lið vilja sigur í kvöld og megi betra liðið sigra. Ljóst er að í það minnsta þarf fjóra leiki til að útkljá einvígi liðanna og verður fjórði leikurinn í Síkinu á mánudaginn. Útlit er fyrir að Valsmenn verði að setja keðjurnar undir rútuna því stundum snjóar í maí – en það er auðvitað allt annað mál.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.