Martröðin í Sláturhúsinu
Nei, þetta er ekki titillinn á nýjustu mynd Quentin Tarantinos heldur lýsing á leik Tindastólsmanna í Sláturhúsinu suður með sjó í gærkvöldi. Eftir draumaleik gegn Njarðvíkingum fyrir viku þá gekk hvorki né rak hjá Stólunum þegar þeir mættu grönnum Njarðvíkinga, Keflvíkingum, í Dominos-deildinni og niðurstaðan skellur. Keflvíkingar sigruðu 101-79.
Leikurinn var jafn framan af fyrsta fjórðungi. Björgvin kom Stólunum yfir 2–4 með troðslu og Pétur setti þrist og breytti stöðunni í 5-7. En Keflvíkingar voru síðan með frumkvæðið og létu forystuna ekki af hendi það sem eftir lifði. Uppleggið hjá Tindastólsmönnum fyrir leik var að reyna að halda Amin Khalil Stevens, kana Keflvíkinga, niðri og sjá til þess að heimamenn væru ekki að skora meira en 20 stig í fjórðung. Hvorugt tókst. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 25–19 en í öðrum leikhluta tóku Keflvíkingar öll völd. Þegar hann var hálfnaður höfðu þeir bætt við 19 stigum á meðan Stólarnir höfðu gert fjögur stig. Aðeins náðu okkar menn að skrúfa fyrir lekann en staðan í leikhléi 53–32 og staðan afleit.
Costa náði að hrista upp í mannskapnum í hálfleik því allt annað var að sjá til leikmanna Tindastóls í þriðja leikhluta. Nú náðist upp fín vörn sem skilaði góðum körfum í kjölfarið. Eftir um sex mínútna leik var munurinn kominn niður í tíu stig og þegar ein og hálf mínúta lifði af leikhlutanum minnkaði Samb muninn í fimm stig, 67–62, með 3ja stiga skoti. Pétur setti sömuleiðis niður þrist með lokaskoti fjórðungsins þannig að staðan var 71-66 fyrir lokaátökin sem virtust lofa góðu.
Þá fór allt í handaskolum hjá Stólunum. Þeir misstu boltann ítrekað í sókninni á meðan að Stevens og Guðmundur setti niður stórar körfur og munurinn orðinn 14 stig eftir 90 sekúndur. Eftir það var andinn með heimamönnum sem keyrðu miskunnarlaust á gestina og voru, þegar upp var staðið, komnir með meira en 20 stiga forskot. Lokatölur sem fyrr segir 101–79.
Í liði Keflvíkinga var Stevens stórkostlegur með 35 stig og 19 fráköst – þar af níu sóknarfráköst. Þá datt Guðmundur Jónsson inn með sjö þrista í tíu skotum sem á náttúrulega að vera stranglega bannað. Það er að sjálfsögðu óþolandi að Stólarnir lendi í því að andstæðingarnir detti í banastuð þegar um sjónvarpsleiki er að ræða. Svona voru Brilli og Siggi í KR-leiknum fyrr í haust og þetta er bara ekkert skemmtilegt. Spurning um að hætta að sýna Tindastól á Stöð2Sport?
Stólarnir áttu ekki góðan leik. Þeir tóku aðeins 34 fráköst á móti 47 fráköstum heimamanna og Stólarnir töpuðu boltanum 14 sinnum, helmingi oftar en Keflvíkingar. Þegar andstæðingurinn dettur síðan í tæplega 50% hittni í 3ja stiga skotum þá er vandlifað. Samb var stigahæstur í liði Stólanna með 22 stig og átta fráköst og eðlilegt væri að vænta þess að 208 sm hár leikmaður væri öflugri undir körfunni. Pétur gerði 20 stig og Caird skilaði 19 stigum. Svavar og Björgvin gerðu átta stig hvor og Pálmi tvö. Er þá upptalið hverjir skoruðu stig Stólanna, aðeins sex leikmenn, og það er auðvitað ekki til útflutnings.
Næsti leikur Tindastóls er í Síkinu fimmtudaginn 10. október en þá koma Snæfellingar í heimsókn en þeir hafa tapað öllum leikjum sínum í deildinni hingað til.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.