Markalaust jafntefli í mikilvægum leik
Tindastóll og Stjarnan mættust í baráttuleik á Króknum í gær en liðin eru á svipuðum slóðum í Bestu deildinni, Stjörnustúlkur sæti og tveimur stigum betur settar og sigur Stólastúlkna hefði orðið sætur. Það fór þó svo að liðin skildu jöfn, komu ekki boltanum í netið þrátt fyrir nokkrar ágætar tilraunir og lokatölur því 0-0.
Þau undur og stórmerki gerðust að Bryndís Rut fyrirliði var fjarri góðu gamni en það eru örugglega ansi mörg ár síðan hún missti af leik. Það var María Dögg sem skartaði því fyrirliðabandinu og henni brást ekki bogalistin. Enn vantaði Elísu Bríeti í lið en Aldís María var komin á bekkinn. Fjarvera Bryndísar þýddi að Lara Margrét datt niður í vörnina og Saga Ísey lék sinn fyrsta leik í byrjunarliði í Bestu deildinni. Þær stóðu vel fyrir sínu.
Lið Tindastóls fór betur af stað í leiknum og uppskar víti eftir tíu mínútna leik þegar Jordyn var tekin niður í teignum. Gwen Mummert, sem var að spila sinn síðasta leik með liði Tindastóls, hafði það hlutverk að taka vítið sem og hún gerði en Erin Mcleod í markinu sá við henni og varði spyrnuna meistaralega. Þetta sló heimastúlkur aðeins út af laginu og Stjarnan færði sig upp á skaftið, án þess þó að skapa sér dauðafæri. Jordyn komst í gott færi skömmu fyrir hlé en Erin var í stuði í markinu og varði vel.
Í síðari hálfleik náði lið Tindastóls enn betri tökum á leiknum og Gabby og Annika stjórnuðu ferðinni á miðjunni, voru sívinnandi og fljótar að spila boltanum. Í heildina var lið Tindastóls að spila vel en spennustigið í leiknum virtist segja til sín þegar í færin var komið. Erin varði vel frá Hugrúnu og Jordyn og Stjörnustúlkur áttu tvo ágæt skot að marki Tindastóls. Markmennirnir þurftu ekki að hafa mikið fyrir hlutunum að þessu sinni en Erin fékk þó úr meiru að moða en Monica í marki Tindastóls.
Svekkjandi niðurstaða í leiknum en enn og aftur flott frammistaða – vantaði bara að skora. Varnarþríeykið María Dögg, Gwen og Lara Margrét voru þéttar og það voru ekki mörg færi sem gestirnir sköpuðu. Laufey átti margar góðar rispur á vinstri kantinum og Birgitta var snörp framan af en fékk höfuðhögg seint í fyrri hálfleik og Aldís María kom í hennar stað í hálfleik. Þá sýndi Hugrún ágæta takta og var hættuleg en hafði ekki erindi sem erfiði líkt og Jordyn í framlínunni.
Nú tekur við tveggja vikna pása hjá liði Tindastóls en næsti leikur er gegn liði Fylkis í Árbænum þann 21. júlí.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.