Margir leikmenn tóku miklum framförum hjá Dr. Milan
Milan Rozanek, fyrrverandi þjálfari körfuknattleiksliðs Tindastóls, var á fimmtudaginn tekinn inn í heiðurshöll körfuboltans í Slóvakíu fyrir ævistarf sitt í þágu íþróttarinnar í landinu. Morgunblaðið segir frá því að Milan, sem er nú 83 ára gamall, hafi þjálfað karlalið Tindastóls veturinn 1990-1991. Það tímabil var Tindastóll með Pétur Guðmundsson, eina NBA-leikmann Íslands á þeim árum, í sínum röðum og auk þess leikmenn á borð við Val Ingimundarson, Sverri Sverrisson og Karl Jónsson.
„Milan var unglingalandsliðsmaður Tékkóslóvakíu í bæði körfuknattleik og frjálsíþróttum og starfaði síðan við þjálfun í landinu um árabil áður en hann kom til Sauðárkróks, þjálfaði m.a. B-landslið Tékkóslóvakíu,“ segir Mogginn og bætir við að Milan hafi farið aftur á heimaslóðirnar eftir dvölina á Króknum og vann þar við þjálfun í körfubolta fram yfir áttrætt, hjá félagsliðum og yngri landsliðum og starfaði jafnframt sem íþróttakennari. Síðast þjálfaði hann lið Zilina í efstu deild í Slóvakíu tímabilið 2021-22. Þetta verður að flokkast sem seigla vel yfir meðallagi og kemur kannski engum á óvart sem þekkti til Doktorsins.
Feykir hafði samband við Kalla Jóns, fyrrum leikmann og þjálfara Stólanna, en hann lék einmitt með liði Tindastóls þegar Dr. Milan stýrði skútunni. Hann man ekki hverng það kom til að Dr. Milan var ráðinn þjálfari á Króknum en það hafi alltaf verið einn og einn erlendur þjálfari sem fenginn var á klakann til að þjálfa. „Annað hvort voru það Bandaríkjamenn eða Austantjaldsmenn og árangur þeirra misjafn. Það var sagt um Milan að hann var mjög góður fyrir yngri flokkana, hann kenndi undirstöðuatriðin vel og ég veit um marga leikmenn sem tóku miklum framförum hjá honum. Hann var með aga á mannskapnum án þess að fara yfir strikið í þeim efnum og það er alltaf nauðsynlegt til að ná árangri og gera menn betri. Margir sem voru ungir á þeim tíma hugsa hlýlega til Milans vegna þess sem hann gerði fyrir þá.
Menn báru ekki nógu mikla virðingu fyrir honum
Kalli segir að þegar það kom að meistaraflokknum hafi staðan náttúrlega verið sú að þar voru fyrir á fleti ansi stórir karakterar. „Sem hann náði ekkert alltaf vel að díla við, því miður. Við höfðum lið á þeim tíma sem hefði getað náð mjög langt ef Milan hefði náð betur að beisla anda þeirra og sjálfstæði og þar stóð hnífurinn í kúnni, menn báru ekki nógu mikla virðingu fyrir honum. Við heimaguttarnir gerðum það alveg og gerðum það sem fyrir okkur var lagt, en það vantaði liðsheildina í liðið til að það næði árangri. Þegar kom að leikskipulagi vildi Milan hafa hlutina einfalda og með þann mannskap sem við höfðum hefði það alveg átt að ganga ef allir hefðu gengið í takti, því einstaklingsgæðin voru það mikil. En hann fékk gagnrýni á sig einmitt fyrir leikskipulagið og á endanum voru bara of margir þjálfarar í liðinu sem allir vildu sína sneið af kökunni og hafa sitt að segja um spilamennsku liðsins.“
Hvað breyttist í körfunni hér heima eftir að hann kom? „Milan breytti heilmiklu að mínu mati og sérstaklega í yngri flokkunum. Hann kom inn með aga og þessa gríðarlega miklu áherslu á undirstöðuatriðin og kennslu þeirra. Og það er það sem þessir þjálfarar hafa komið með að borðinu hér á Íslandi. En nokkrir hafa náð góðum árangri í meistaraflokksþjálfun, nægir þar að nefna Laszlo Nemeth, Ungverjann sem náði góðum árangri með KR á sínum tíma. Í dag getum við horft á Borche Ilievski sem hefur þjálfað víða hér á landi bæði yngri flokka og meistaraflokka, hann er dæmi um þjálfara sem náð hefur að aðlaga sig vel að íslensku samfélagi og aðstæðum. Þeir sem hafa ekki ílengst hafa sumir hverjir verið með óraunhæfar kröfur á íslenska leikmenn og hafa ekki tekið tillit til íslensks samfélags t.d. að menn séu í fullri vinnu eða fullum skóla á daginn. Æfingar verða langar og jafnvel leiðinlegar og gleðin hverfur.“
Er það góð hugmynd að ráða erlenda þjálfara til starfa, er þetta ekki bara tómt vesen? „Það er mín skoðun að það sé nauðsynlegt fyrir okkur á Íslandi að fá inn erlenda þjálfara til að staðna ekki í því sem við erum að gera og til að lífga upp á litla körfuboltaheiminn okkar. En það þarf að leggjast í gríðarlega góða bakgrunnsvinnu og ræða jafnvel mikið við þá erlendu einstaklinga sem koma til greina því aðeins þannig verða líkurnar betri á að menn ráði heppilegan einstakling í verkefnið,“ segir Kalli að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.