Má leyfa sér að dreyma?
Hversu klikkað var þetta? Valur og Tindastóll mættust í þriðja leiknum í einvígi liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í Origo-höllinni í kvöld. Stuðningsmenn og leikmenn beggja liða bjuggu til hreint stórkostlega sýningu sem fékk líka þennan dásamlega endi. Eftir nokkuð strögl í fyrri hálfleik þar sem vörn Stólanna small ekki alveg og Valsmenn stjórnuðu ferðinni þá komu Stólarnir heldur betur klárir í slaginn í síðari hálfleik. Eftir nett þristasjó frá Drungilas þá voru það gestirnir sem sem tóku leikinn yfir og unnu hreint magnaðan endurkomusigur. Lokatölur 79-90 og nú er staðan þannig að lið Tindastóls leiðir einvígið 1-2 og á möguleika á að skrifa nýjan kafla í körfuboltasöguna.
Ef liðið nær að sigra lið Vals í Síkinu næstkomandi mánudagskvöld þá lyfta strákarnir okkar Íslandsmeistaratitlinum í fyrsta sinn í sögu Tindastóls. Kálið er hins vegar ekki sopið þau í ausuna sé komið og Valsmenn, ríkjandi Íslands-, bikar- og deildarmeistarar hafa örugglega ekki sagt sitt síðasta orð í þessari baráttu.
En það leggst pottþétt margur stuðningsmaður Stólanna á koddann í kvöld með stjörnur í augum og með drauminn eina sanna í seilingarfjarlægð – titilinn í höndum Tindastóls!
Leikurinn
Bæði lið komu vel stemmd til leiks og skiptust á að skora en Valsmenn náðu sex stiga forystu fljótlega og voru yfir 14-8 eftir rúmlega fjögurra mínútna leik. Ekki leið á löngu að Keyshawn kom gestunum yfir og tvær körfur frá Sigga Þorsteins komu liði Tindastóls fimm stigum yfir, 14-19. Allt var þó jafnt að loknum fyrsta leikhluta og staðan 21-21. Vörn Stólanna gaf Kára Jóns lausan tauminn í öðrum leikhluta og hann þakkaði fyrir sig með því að setja fjóra þrista úr opnum færum en þó Valsmenn virkuðu töluvert sterkari á þessum kafla varð munurinn aldrei meiri en níu stig því þó sókn Stólanna væri stirð þá seigluðust strákarnir til að setja niður körfur. Staðan í hálfleik 49-42.
Það tók Stólana smá stund að finna taktinn í vörninni í upphafi síðari hálfleiks og mest varð forysta heimamanna tíu stig, 54-44. Skyndilega var eins og allt yrði erfitt í sókn Vals og Stólarnir, sem aðeins gerðu eina 3ja stiga körfu í fyrri hálfleik, fundu Drungilas á góðum stöðum og þá var ekki að sökum að spyrja. Eftir rúmlega fjögurra mínútna leik höfðu Stólarnir jafnað leikinn eftir íleggju frá Taiwo, 57-57, og það var eins og sjálfstraustið færðist frá Valsmönnum yfir á Stólana. Keyshawn kom liði Tindastóls yfir, 60-62, og þristur frá Drungilas jók muninn í fimm stig.
Leikurinn var engu að síður í járnum en á lokamínútu þriðja leikhluta klikkaði Raggi á tveimur íleggjum en skellti síðan í silkiþrist og sá til þess að Stólarnir leiddu að leikhlutanum loknum, staðan 66-70. Hann kom síðan muninum í sjö stig með öðrum þristi í upphafi fjórða leikhluta. Valsmenn náðu að minnka muninn í þrjú stig, 70-73, en Drungilas lagði boltann í körfu Vals og munurinn fimm stig. Spennustigið í leiknum var á suðupunkti á þessum tímapunkti og þrátt fyrir mýmörg tækifæri tókst hvorugu liðinu að skora næstu fjórar mínúturnar. Það var síðan loks Taiwo sem setti niður tvö víti þegar fjórar mínútur voru til leiksloka og skyndilega áttu meistararnir engin svör. Stólarnir sigldu sigrinum nokkuð þægilega í höfn og fögnuðu innilega með fjölmennum hópi stuðningsmanna í leikslok.
Leikurinn var hin besta skemmtun og leikmenn sýndu skemmtilega takta – suma leikræna en Valsmenn unnu mikið með það að reyna að fiska Drungilas út af sem var synd að sjá. Keyshawn átti frábæran leik, gerði 21 stig, tók sex fráköst, átti sex stoðsendingar og stal boltanum fjórum sinnum. Taiwo var með 20 góð stig og Drungilas gerði 18 stig og tók átta fráköst. Raggi átti flotta innkomu og gerði tíu stig á 13 mínútum og Arnar var með níu en Valsmenn hafa náð að draga úr honum vígtennurnar í leikjunum hingað til. Þá var Pétur með fjögur stig en hann hirti átta fráköst og átti tíu stoðsendingar. Í liði Vals var Kári Jóns með flest stig eða 19 og 17 þeirra komu í fyrri hálfleik. Bertone gerði 16 stig og Kristófer Acox og Booker 13 stig hvor.
Það er því ljóst að bikarinn verður í Síkinu nú á mánudagskvöldið og bara spurning hvort Helgi Rafn og félagar ná að festa hendur á honum.
Verkefni að halda strákunum á réttum stað
„Hver einasti leikur hefur sína sögu. Leikir eitt og tvö skiptu engu máli núna í leik þrjú og leikur þrjú skiptir engu máli í fjórða leik, alveg sama hvað er undir. Það verður auðvitað verkefni að halda strákunum á réttum stað og það er vinnan næstu daga,“ sagði Pavel í samtali við Stöð2Sport að leik loknum.
Spurður út í það hvort það setti meiri pressu á lið Tindastóls að hafa bikarinn í húsinu sagði hann: „Vonandi verður það bara gott og vonandi kveikir það bara í hungrinu hjá þeim í staðinn fyrir að vekja upp einhvern ótta að þessi bikar sé á leiðinni aftur út úr því húsi. Ég vona að þeir hlaupi út um allan völlinn eins og í dag og horfa svo öðru hvoru á bikarinn, því að þeir vilja sækja hann,“ sagði Pavel Ermolinskij, þjálfari Tindastóls, að endingu.
Þetta er ekki flókið. Þetta er fyrir Tindastól!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.