Lukkudísirnar voru í liði með FH
Fyrsti leikur Tindastóls í Bestu deild kvenna þetta árið fór fram nú undir kvöld en þá tóku Stólastúlkur á móti liði FH við ágætar aðstæður. Það verður varla annað sagt en að lukkudísirnar hafi verið í liði með gestunum því í það minnsta þrívegis skall boltinn í stangir FH marksins. Það voru hins vegar Hafnfirðingarnir sem gerðu eina mark leiksins snemma í síðari hálfleik og þrátt fyrir talsverða pressu og nokkur ágæt færi þá tókst liði Tindastóls ekki að jafna.
Það voru gestirnir sem áttu fyrsta færið en stuttu síðar fékk lið Tindastóls nokkrar hornspyrnur sem sköpuðu mikla hættu og í kjölfar þeirra skall boltinn í það minnsta tvisvar í stönginni. Annars var leikurinn ansi jafn en gestirnir reyndu ítrekað að sækja upp hægri kantinn en oftar en ekki vörðust heimastúlkur vel. Bryndís, Gwen, María og Laufey voru traustar í öftustu línu, inni á miðjunni voru Elísa og Gabrielle mjög duglegar og sóknarleikurinn hvíldi mest á Jordyn, Aldísi, Hugrúnu og Birgitta en sú síðastnefnda, sem er 16 ára Skagstrendingur, var í fyrsta sinn í byrjunarliði Tindastóls í Bestu deildinni en hún kom átta sinnum inn á sem varamaður í fyrra. Vinkona hennar frá Skagaströnd, Elísa Bríet, er nánast orðin reynslubolti miðað við hvernig hún spilar með liðinu en hún tryggði sér sæti í byrjunarliði Tindastóls upp úr miðju síðasta sumri.
Staðan var 0-0 í hálfleik og síðari hálfleikur fór ágætlega af stað fyrir heimaliðið.
Eina mark leiksins kom hins vegar á 54. mínútu en eftir ágæta sókn FH upp vinstri kantinn barst boltinn á Hildigunni Benediktsdóttur sem fékk allt of mikinn tíma til að athafna sig við vítateigslínuna, sá allt of mikið af markinu og náði óverjandi skoti ofarlega í fjærhornið. Donni breytti um leikaðferð, Hugrún fór út af og Lara Margrét kom inn á. Eftir þetta jókst sóknarþungi Stólastúlkna og liðið skapaði sér nokkur ágæt færi. Birgitta fékk 2-3 og setur boltann bara í markið næst, María Dögg var berjandi gervigrasið eftir að hafa klikkað á færum og þá átti Gabrielle skot sem small í utanverðum samskeytunum. Þá varði Skagfirðingurinn, Herdís Guðbjarts, nokkrum sinnum vel í marki FH.
Það fór á endanum svo að FH hélt út og tók stigin þrjú með sér í Hafnarfjörðinn. Þó svo að lið Tindastóls hafi tapað leiknum var liðið að spila fínan fótbolta á lögnum köflum og skorti helst svolitla yfirvegun þegar komið var upp að marki gestanna. Nú þarf liðið hins vegar að finna aðrar leiðir í mark andstæðinga sinna en í gegnum Murr og þarf helst að vera fljótt að finna þær. Ein ung markadrottning fékk að spreyta sig síðustu 20 mínútur leiksins en Saga Ísey frá Hvammstanga spilaði sínar fyrstu mínútur í Bestu deildinni en líkt og stallsystur hennar frá Skagaströnd er hún aðeins 16 ára. Saga Ísey kom inn á fyrir Birgittu sem varð fyrir hnjaski.
Sem stendur hefur lið Tindastóls aðeins á að skipa fjórum erlendum leikmönnum og breiddin í liðinu er ansi lítil. Beðið er eftir að þrír leikmenn skili sér til baka eftir langvarandi meiðsli en það hlýtur að vera í Excel-skjali knattspyrnudeildar að bæta við 1-2 góðum erlendum leikmönnum með smá reynslu á tanknum. Það er þó hæpið að hópurinn vaxi fyrir næsta leik því nú á laugardaginn er annar heimaleikur en þá mætir lið Breiðabliks í heimsókn en Blikar lögðu lið Keflavíkur 3-0 í kvöld.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.