Ljómarallið fer fram í Skagafirði á morgun
Það verður ekkert gefið eftir þegar Ljómarallý fer fram í Skagafirði á morgun, laugardaginn 27. júlí. Ljómarallið er önnur keppnin í Íslandsmeistaramótinu en fresta þurfti keppni á Suðurnesjum í vor og staðan í Íslandsmeistaramótinu því mun opnari en oft hefur verið á þessum árstíma. Keppnin verður með hefðbundu sniði og verður fyrsti bíll ræstur frá Vélaval í Varmahlíð kl. 8 á laugardagsmorguninn.
Eftirfarandi vegir verða lokaðir almennri umferð laugardaginn 27. júlí 2024, svo sem hér segir:
Kl. 07:45 - 12:45. Vegur nr. 35 um Mælifellsdal / Mælifellsdalsvegur F756 um 4,5 km frá Efribyggðarvegi nr. 751 að Bugavatni. Við þetta lokast einnig aðkoma af vegslóða um Gilhagadal inn á fyrrnefndan veg.
Kl. 12:40 - 14:30. Vegur nr. 752 / F752 Skagafjarðarleið frá afleggjara á móts við Litlu-Hlíð / Hof og Hofsvelli að Þorljótsstöðum. Þessi vegur er í raun nyrsti hluti Sprengisandsleiðar, Skagafjarðarmegin.
Vegfarendum er skylt að virða lokanir og fyrirmæli starfsmanna keppninnar.
20 áhafnir eru skráðar til leiks og hafa keppendur úr röðum kvenna og ungra ökumanna hafa sjaldan verið fleiri. Meðal keppenda á laugardaginn eru einnig fjórir ökumenn og tveir aðstoðarökumenn sem hampað hafa Íslandsmeistaratitli yfir heildina, auk flokkameistara.
Fyrstur í rásröð verður núverandi Íslandsmeistari, Gunnar Karl Jóhannesson sem mætir til leiks og að þessu sinni með móður sína Guðríði Lindu Karlsdóttur sem aðstoðarökumann. Þau verða á öflugu keppnistæki sem Gunnar hefur keppt á undanfarin misseri í Bretlandi.
Önnur í rásröð verða Daníel og Ásta Sigurðarbörn. Þau eru til alls líkleg, enda í góðri æfingu um þessar mundir eftir góðan akstur á breskum sérleiðum, auk þess að vera ein sigursælasta áhöfn í rallakstri hérlendis.
Margir fleiri hraðskreiðir ökumenn eru á ráslista í Ljómarallinu á laugardaginn sem sýnt hafa frábæran árangur á liðnum árum. Þá hefur líka orðið ánægjuleg nýliðun þar sem nýtt fólk haslar sér völl í rallinu. Gaman verður að fylgjast með ökumönnum sem hafa frá barnsaldri keppt í rallýkrossi en færa sig nú um set í rallið og mæta þangað með töluverða akstursreynslu þrátt fyrir ungan aldur.
Það verður því áreiðanlega hart barist um hverja sekúndu og hvert stig þar sem eigast við reyndir keppendur í bland við nýja og efnilega. Kynning úrslita og verðlaunaafhending verða við Vélaval í Varmahlíð kl: 15:35.
Þeir sem vilja horfa á eða fá nánari upplýsingar um keppnina er bent á facebook síðu Bílaklúbbs Skagafjarðar. Þá má sjá tíma og stöðu í keppninni á vefsíðunni: www.rallytimes.is
Stjórnstöð keppninnar verður í Vélavali í Varmahlíð. Keppnisstjóri er Benjamín Þór Sverrisson.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.