Lið Selfoss vann Fótbolti.net bikarinn
Knattspyrnulið Tindastóls í karlaflokki spilaði um síðustu helgi einn merkilegasta leik sinn síðasta áratuginn í það minnsta en þá héldu strákarnir austur á land og léku við lið KFA í Reyðarfjarðarhöllinni. Um var að ræða undanúrslitaleik í Fótbolti.net bikarnum og gulrótin var því bikar og úrslitaleikur á Laugardalsvelli. Þrátt fyrir hetjulega baráttu og ágætan leik voru það þó heimamenn í Knattspyrnufélagi Austurlands sem höfðu betur, unnu leikinn 2-1.
Leikurinn fór þó vel af stað fyrir gestina því Dominic Furness kom liði sínu yfir strax á fjórðu mínútu. Aðeins sex mínútum síðar höfðu heimamenn jafnað með marki Eiðs Orra Ragnarssonar. Staðan jöfn í hálfleik en sigurmarkið gerði Marteinn Már Sverrisson um miðjan síðari hálfleik og þrátt fyrir að gestirnir gerðu sitt besta þá kom jöfnunarmarkið ekki.
Gott sumar engu að síður hjá Stólunum sem sigruðu 4. deildina með glæsibrag og komust sem fyrr segir í undanúrslit í Fótbolta.net bikarnum þar sem eigast við lið í 2., 3. og 4. deild.
Í úrslitaleiknum, sem fram fór í fyrrakvöld, mættust lið Selfoss og KFA og þar náðu Austfirðingar forystunni snemma í síðari hálfleik. Selfysstingar, undir stjórn Bjarna Jó, jöfnuðu stundarfjórðungi fyrir leikslok og þeir gerðu síðan tvö mörk í framlengingu og unnu leikinn 3-1. Til hamingju Selfoss!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.