Lið Kormáks/Hvatar í bullandi toppbaráttu að lokinni fyrri umferð

Það var toppbaráttuslagur í 3. deildinni í gær þegar leikmenn Kormáks/Hvatar sóttu lið Augnabliks heim í Fífuna í Kópavogi. Fyrir leikinn var lið Húnvetninga í öðru sæti deildarinnar en heimamenn í því fjórða. Það fór svo að Augnablik hafði betur, 2-1, og nú þegar keppni í 3. deildinni er hálfnuð þá er Kormákur/Hvöt í fjórða sæti með 20 stig, Augnablik í þriðja með 21, Víðir í öðru sæti með 22 stig og á toppnum er lið Reynis Sandgerði með 25 stig.

Heimamenn komust yfir á 42. mínútu með marki frá Breka Barkarsyni og staðan 1-0 í hálflleik. Steinar Hákonarson bætti um betur eftir tíu mínútna leik í síðari hálfleik. Jónþór Ingólfsson fékk að líta sitt annað gula spjald á 78. mínútu og kvaddi Fífuna. Gestirnir voru ekki lengi að nýta liðsmuninn því Ingvi Rafn kom sínum mönnum inn í leikinn með skallamarki á 79. mínútu eftir stoðsendingu frá Atla Sindrasyni. Því miður tókst gestunum ekki að jafna leikinn á þeim stundarfjórðungi sem eftir lifði en Ingabergi Kort tókst að næla sér í rautt spjald á lokamínútunum. Liðin enduðu því bæði með tíu leikmenn á vellinum.

Að sögn Ingva Rafns Ingvarssonar, spilandi þjálfara Kormáks/Hvatar, var um 50/50 leik að ræða. „Þeir skora úr skyndisókn og horni. Við hefðum getað skorað fleiri en mér fannst þetta best spilandi liðið sem við höfum mætt í sumar.“

Næsti leikur Kormáks/Hvatar verður um Húnavökuhelgina sem er einmitt næsta helgi, Þá mæta til leiks sterkir strákar úr Garðinum en heimamenn eiga harma að hefna, töpuðu fyrri leiknum 3-0 og það þarf að leiðrétta. Áfram Kormákur/Hvöt!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir