Leik lokið eftir 24 mínútur í Víkinni
Hamingjunni var misskipt á heimavelli Víkinga í gær sem oft er kenndur við hamingjuna. Þangað mættu Stólastúlkur í gærkvöldi en fyrstu mínútur leiksins hefði mátt halda að liðið hefði mætt til leiks í vöðlum í vætuna í Víkinni. Eftir sex mínútur voru heimastúlkur komnar í 2-0 og eftir 24 mínútur var staðan 4-0. Vont versnaði ekki mikið í síðari hálfleik þannig að Stólarútan silaðist norður í land með ljótt 5-1 tap á bakinu.
Þetta voru auðvitað ekki úrslitin sem vonast var eftir í næstsíðustu umferð Bestu deildarinnar en lið Tindastóls er nú í bullandi botnbaráttu eftir að hafa ekki náð vopnum sínum eftir að Gwen yfirgaf liðið um mitt sumar. Lengi vel leit reyndar út fyrir að dagurinn yrði algjört þrot fyrir lið Tindastóls því Keflavík, sem hefur vermt annað botnsætanna í allt sumar, var að gjörsigra FH-inga 3-0 í hálfleik og sigur hefði fleytt þeim upp að hlið Tindastóls. Hafnfirðingar komu hins vegar í stuði út í seinni hálfleikinn og tóku öll stigin í Keflavík í 3-4 sigri – takk FH!
Víkingar byrjuðu af krafti og Linda Líf Bouam gerði gott mark á 3. mínútu eftir að hafa sett Elise Ann á skauta. Svo sótti Tindastóll í þrjár mínútur, eða þangað til Víkingsliðið vann boltann, brunaði fram og enn á ný leit vörn Tindastóls illa út, Monica varði skot en boltinn barst á Lindu sem gerði annað mark sitt. Bergdís Sveinsdóttir gerði þriðja markið á 20. mínútu og Freyja Stefánsdóttir það fjórða á 24. mínútu og þá var í raun leik lokið. Gestirnir gáfust þó ekki upp og Jordyn komst í dauðafæri skömmu síðar en skaut framhjá og þá vildu Stólastúlkur fá víti eftir hálftíma leik þegar Elísa Bríet var tekin niður í teignum. Ekkert dæmt í það skiptið og staðan 4-0 í hálfleik.
Shaina Ashouri bætti við fimmta marki Víkings á 50. mínútu en hún fékk þá boltann í sig þegar gestirnir voru að reyna að hreinsa frá marki. Þegar stundarfjórðungur var til leiksloka átti Jordyn skot í samskeytin en eina mark Tindastóls leit loks dagsins ljós á 89. mínútu þegar Stólastúlkur fengu víti. Markamaskínan Jordyn gerði sig klára í að taka spyrnuna en þar sem það blæddi úr henni sendi dómarinn hana út af til aðhlynningar. Elise Ann tók því spyrnuna en markvörður heimastúlkna varði en Elísa Bríet var fyrst á boltann og skilaði honum í markið.
Næsti leikur Tindastóls, og jafnframt sá síðasti í deildinni áður en úrslitakeppnin hefst, verður sunnudaginn 25. ágúst en þá kemur botnlið Keflavíkur í heimsókn á Krókinn. Þá verða allir að mæta á völlinn! Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.