Lautarferð er það ekki
Tindastólsmenn tóku á móti liði Vals í gærkvöldi í öðrum leik liðanna í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn. Heimamenn vonuðust eftir að geta hert takið á bikarnum og fylgt eftir sigri í fyrsta leiknum með góðum leik og sigri en þegar til kom þá komu Valsmenn mun ákveðnari til leiks og nánast héldu uppteknum hætti frá síðustu fimm mínútum fyrsta leiksins þar sem allt fór niður hjá þeim. Það bara dugði ekki til þá. Lokatölur í gær voru 87-100.
Stemningin fyrir og á meðan leik stóð var hreint mögnuð og til fyrirmyndar. Mætingin frábær í Síkið, um 1500 manns fylltu út í öll skúmaskot og allt lék á reiðiskjálfi.
Pavel þjálfari sagði í viðtali við Stöð2Sport að leik loknum að hann hefði skynjað í byrjun leiks að kvöldið yrði sínum mönnum erfitt og það má taka undir það. Allt annar bragur var yfir lykilmönnum Vals, Stólarnir fengu lítið pláss og lítinn tíma til að athafna sig. Valsmenn höfðu gert 20 stig eftir fimm mínútna leik og leiddu þá með tíu stigum. Í stuttu máli þá náðu Stólarnir aldrei að klukka gestina og náðu aldrei að jafna leikinn eða komast yfir. Þeir náðu ágætum áhlaupum en Valsmenn svöruðu jafnharðan. Sóknarleikur Vals gekk vel í leiknum og þeir skoruðu yfir 20 stig í öllum leikhlutum. Á sama tíma virtust Stólarnir ekki ná upp almennilegri stemningu í sinni vörn og voru oftar en ekki skrefinu á eftir gestunum.
Staðan var 47-55 í hálfleik og stuðningsmenn Stólanna vonuðust eftir viðsnúningi í síðari hálfleik en enn komu Valsmenn frískari til leiks og voru fljótlega búnir að ná 15 stiga forskoti. Lítið gekk hjá heimamönnum í þriðja leikhluta og voru þeir 16 stigum undir, 62-78, þegar lokaleikhlutinn hófst. Það var högg fyrir heimamenn að Keyshawn, sem vanalega er ekki í villuvandræðum í leikjum, fékk sína fimmtu villu í upphafi fjórða leikhluta en þá var staðan 67-79 eftir fimm góð stig frá Pétri. Herra Skagafjörður bar liðið á herðum sínum næstu mínútur og skoraði hverja körfuna á fætur annarri. Allt í allt gerði hann 18 stig í leikhlutanum, komst í Jónsarnórskar hæðir í leik sínum, og virtist hreinlega ætla að vinna leikinn upp á sitt einsdæmi. Eftir tvo þrista Péturs á örfáum sekúndum var munurinn fimm stig, 78-83, og tæpum tveimur mínútum síðar var munurinn enn fimm stig eftir þrjú stig frá Pétri og þrist frá Drungilas. Vandamálið fyrir Stólana var varnarleikurinn því Valsmenn fundu alltaf menn til að svara. Þristar frá Pavlovic og Kára slökktu neistann sem hafði kviknað í heimamönnum og sóknarleikur Stólanna varð of snemma örvæntingarfullur. Valsmenn unnu því sterkan 13 stiga sigur í Síkinu og jöfnuðu einvígið.
Stólarnir komust hvorki lönd né strönd í teig gestanna
Jafnræði var með liðunum á flestum sviðum í leiknum nema hvað Stólarnir sóttu sárafá stig inn í teig Valsmanna, gerðu þar aðeins ellefu körfur á meðan Valsmenn gerðu 27 körfur í teig Stólanna. Einhver segði sennilega að þetta sýndi hvað varnarleikur Valsmanna var góður. Stólarnir voru því þvingaðir í 3ja stiga skot sem þeir reyndar nýttu ágætlega, settu niður 17 þrista í 45 skotum. Taiwo komst hvorki lönd né strönd í leiknum og gerði aðeins fjögur stig og Keyshawn var sömuleiðis í vandræðum þó hann hafi gert 17 stig meðan hans naut við. Það má því segja að aðeins Pétur hafi átt stjörnuleik hjá Stólunum en hann gerði 29 stig í leiknum, tók sjö fráköst og átti sex stoðsendingar. Í liði Vals voru margir að spila vel en bestir voru þó Kristófer Acox (22 stig og 11 fráköst), Kári Jónsson (19 stig og átta stoðsendingar) og Pablo Bertone (21 stig).
Pavel sagði að leik loknum að í úrslitaeinvíginu væru að mætast tvö lið með mjög sterk einkenni, lið sem vita hvað þau eru og vita hvað þau vilja gera. Oftast sé það liðið sem kemur sínum einkennum á framfæri sem verður ofan á. „Þeim tókst það vel í kvöld og það er munurinn.“ Varðandi það hvað Stólarnir þurfi að gera í framhaldinu sagði Pavel: „Við þurfum að stoppa þá í að skora ... þeir eiga ekki að skora 100 stig á okkur, við skorum 87, ef við spilum góða vörn þá að það vera nóg.“ Hann hló svo að spurningu hressilegs fréttamanns Stöðvar2Sport sem sagði úrslitakeppni Tindastóls hingað til hafa verið lautarferð.Einmitt.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.