Laufey Harpa Halldórsdóttir snýr aftur heim!

Tindastóll hefur komist að samkomulagi við Breiðablik um að fá Laufeyju Hörpu Halldórsdóttur að láni út tímabilið fyrir komandi átök í Bestu deildinni. Hana þarf vart að kynna fyrir stuðningsmönnum Tindastóls enda fædd og uppalin á Króknum. „Það eru gríðarlega stórar fréttir fyrir okkur að við erum búin að fá Laufey Hörpu Halldórsdóttur aftur heim i Tindastól frá Breiðablik. Laufey á svo sannarlega eftir að styrkja okkar lið til muna og það er mikið fagnaðarefni að fá heimastelpu aftur á Sauðárkrók,“ segir Donni þjálfari.

Laufey, sem er fædd árið 2000 og spilaði sína fyrstu leiki með mfl. Tindastóls 15 ára gömul, hefur spilað 104 leiki með Stólastúlkum í deild og bikar og skorað í þeim sjö mörk. Þá á hún að baki sex leiki með yngri landsliðum Íslands. Laufey lék með liði Tindastóls í Pepsi Max deildinni sumarið 2021 og spilaði 17 leiki í efstu deild það sumar. Hún skipti síðan yfir í Breiðablik þar sem hún spilaði átta leiki sl. sumar auk þess að spila þrjá leiki í Mjólkurbikarnum. Hún var m.a. í byrjunarliði Blika í úrslitaleiknum gegn liði Vals.

Laufey er með betri vinstri bakvörðum deildarinnar, sterk og dugleg með baneitraðan vinstri fót. Það verður gaman að sjá hana aftur í Tindastólsbúningnum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir