Landsmót hestamanna hófst í gær
Nú er hafið 25. Landsmót hestamanna en það fer fram á félagssvæði Fáks í Víðidal í Reykjavík. Mótið, sem hófst í gær og lýkur sunnudaginn 7. júlí, er haldið í sameiningu af tveim stærstu hestamannafélögum landsins, Hestamannafélaginu Fáki og Hestamannafélaginu Spretti. Setning Landsmótsins verður á fimmtudagskvöldið og í framhaldi af því fara leikar að æsast en reikna má með um 7.500 gestum á mótið.
Í tilefni af LH er viðtal við meistarann Þórarin Eymundsson í Feyki vikunnar, sem kemur út á morgun. Hann segir Skagfirðinga senda mjög sterka keppendur á mótið að vanda. „Skagafjörðurinn hefur getið af sér marga úrvals gæðinga og á þessu LM verður engin breyting þar á. Skagfirðingur sendir alls tíu gæðinga í A-flokk en helmingur þeirra hesta vann sér þátttökurétt í einkunnir í vor en Skagfirðingur sendir að þessu sinni fimm hesta í hvern flokk. Einnig fara hátt dæmdir klárhestar í gæðingakeppnina og fjórganginn en nú er farið að keppa í öllum greinum hestaíþrótta á LM.“
Á Facebook-síðu hestamannafélagsins Skagfirðings er sagt frá afrekum Skagfirðinga á Landsmótinu og um að gera fyrir áhugasama að fylgjast vel með þar. Þar segir m.a. að sérstök forkeppni hafi verið í barnaflokki á Landsmóti í gærmorgun. „Okkar ungu Skagfirðingar áttu glæsilegar sýningar og voru félagi sínu til mikils sóma. Tvær komust áfram í milliriðla í barnaflokki. Þau Emma Rún Arnardóttir og Tenór frá Litlu Sandvík með 8.64 og Sigrún Sunna Reynisdóttir með Myllu frá Hólum með 8.57. Þær munu keppa í milliriðli á miðvikudaginn kl. 11:00.“
Þá segir að Arnheiður Kristín Guðmundsdóttir og Sprækur frá Fitjum, Sigríður Elva Elvarsdóttir með Tenór frá Túnsbergi, Sigrún Sóllilja Eyþórsdóttir með Geisla frá Keldulandi, Pétur Steinn Jónsson með Takt frá Bakkagerði, Grétar Freyr Pétursson með Sóldísi frá Sauðárkróki og Hreindís Katla Sölvadóttir með Ljóma frá Tungu áttu góðar sýningar og hafi staðið sig frábærlega.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.