Króksbrautarhlaup á laugardaginn

Frá Króksbrautarhlaupi 2009. Mynd: úr safni Feykis.
Frá Króksbrautarhlaupi 2009. Mynd: úr safni Feykis.

Fastur liður í útivist og hreyfingu margra Skagfirðinga er skokkhópurinn svokallaði, sem nú lýkur sínu 20. starfsári undir stjórn Árna Stefánssonar íþróttakennara við FNV. Lokapunktur á sumarstarfinu hefur jafnan verið Króksbrautarhlaupið og löng hefð er fyrir að þar sé hlaupið til styrktar góðu málefni.

Þeir sem lengst fara hlaupa frá Varmahlíð á Sauðárkrók en einnig verður hægt að velja sér styttri vegalengdir, hvort sem menn kjósa að hlaupa, ganga eða hjóla. Að þessu sinni mun ágóði hlaupsins skiptast milli tveggja einstaklinga sem glímt hafa við erfið veikindi, þeirra Pálma Ragnarssonar í Garðakoti og Bjarts Snæs Guðmundssonar á Sauðárkróki.

Að sögn Árna verður boðið upp á rútuferðir frá sundlaug Sauðárkróks, þá fyrri kl. 9:30 fyrir þá sem lengst fara, en leiðin frá Varmahlíð er um 25 kílómetrar. Þeir sem kjósa styttri vegalengd geta farið með rútunni kl. 10:30 og fengið far í Kjartansstaði, en þangað eru um 15 kílómetrar, eða styttra. Rútugjaldið er 1.000 krónur og rennur það í góðgerðasöfnun en Suðurleiðir leggja veglega til söfnunarinnar og aka án endurgjalds.

Árni segir æskilegt fyrir hlaupara að klæðast áberandi fatnaði og fara á móti akandi umferð. Sama gildi um hjólafólk þó ekki sé það reglan, en brugðið sé út af henni til að bílar eigi greiða leið fram hjá þátttakendum. Drykkjarstöðvar verða á hefðbundnum stöðum, það er Glaumbæ, Melsgili og Bergstöðum. Gert er ráð fyrir að allir verði komnir á Krókinn um hálfeitt en þá er boðið upp á holla hressingu og ókeypis slökun í sundlaug Sauðárkróks.

Að sögn Árna hefur þátttakan í skokkhópnum í sumar verið ágæt, þó höfðatalan hafi oft verið hærri. „Þeir sem hafa mætt á annað borð hafa verið duglegir að mæta. Við höfum farið víða, t.d. á Staðaröxl, í Gautsdal, Ennishnjúk, Molduxa, Merkigil, Bakkana og niður Mælifellsdalinn. Þá hafa margir úr hópnum hlaupið í Reykjavík og Grímsey.“ Árni er bjartsýnn á áframhaldandi skokk og útiveru, þó sumarstarfinu sé formlega lokið. „Nú er sumarið rétt að koma og norska veðurspáin geri ráð fyrir sunnanátt og 14 stiga hita á laugardaginn.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir