Sveitarstjórnarkonur flagga fyrir meistaraflokki kvenna

Sveitarstjórnarkonur flagga fyrir fótboltakonum. Jóhanna Ey, Sólborg, Hrund, Sigurlaug Vordís og Álfhildur sáu um að flagga í dag. Mynd af heimasíðu Skagafjarðar.
Sveitarstjórnarkonur flagga fyrir fótboltakonum. Jóhanna Ey, Sólborg, Hrund, Sigurlaug Vordís og Álfhildur sáu um að flagga í dag. Mynd af heimasíðu Skagafjarðar.

Það er stór dagur í knattspyrnuheiminum í dag, alla vega í hugum margra Norðlendinga, þar sem baráttan um efsta sætið í Lengjudeildinni fer fram og þar með sigur í deildinni. Af því tilefni tóku nokkrar galvaskar konur úr sveitarstjórn Skagafjarðar það að sér, fyrir hönd sveitarstjórnar, að flagga fyrir stelpunum á ljósastaurum Skagfirðingabrautar við íþróttasvæðið

Það er ljóst að spenningurinn er mikill fyrir leiknum þar sem um hreinan úrslitarimmu er að ræða milli Tindastóls og FH um hvort liðið hampi deildarbikarnum í næstefstu deild. Ekkert nema sigur dugar Stólum en FH-stúlkum nægir jafntefli þar sem þær hafa eins stigs forskot 41 – 40.

Stelpurnar í FH hafa farið gegnum sumarið án þess að tapa nokkrum leik en gert fimm jafntefli ug unnið tólf leiki, jafn marga og Stóla sem hafa hins vegar tapað einum leik en fjórir leikir endað jafnt. Það er því svo að í Skagafirði, og víðar, vilja allir að gestirnir bæti þessum eina tapleik á töfluna í kvöld. Allir eru hvattir til að mæta snemma, fá sér hammara og pítsugjafabréf á Wok, láta heyra í sér og styðja við bakið á stelpunum og fagna með þeim í leikslok.

Hér fyrir neðan má svo lesa pistil sem Donni þjálfari setti inn á FB-síðuna Stuðningsmenn knattspyrnudeildar Tindastóls í gær:

Heiðrum stelpurnar og gleðjumst saman

„Jæja frábæra stuðningsfólk!
Núna er komið að síðasta leik kvenna liðsins okkar!

Liðið hefur staðið sig hreinlega stórkostlega og verið sér, ykkur og félaginu til mikils sóma, eins og alltaf. Eins og allir vita eru stelpurnar búnar að tryggja sér sæti i efstu deild og það er að mínu viti algerlega stórkostlegur árangur. Það er alls ekki auðvelt að falla um deild en fara beinustu leið upp aftur og það með þvílíkum glæsibrag.

Stelpurnar hafa æft gríðarlega vel og lagt þvílíkt mikið á sig og það er ekki bara fyrir sig sjálfar sem þær gera það - heldur að sjálfsögðu líka fyrir ykkur og okkur öll sem styðjum Tindastól. Við erum öll saman í þessu og eigum öll hlut í árangrinum og það er mikilvægt að muna það að það eru ekki bara þær sem fara upp um deild heldur við öll sem samfélag.

Svo ég vil nota þennan vettvang hér og óska hreinlega ykkur öllum til hamingju með árangurinn og á sama tíma þakka fyrir stuðninginn hingað til. Á morgun [í dag] mætum við auðvitað ÖLL og heiðrum stelpurnar og gleðjumst saman - við ætlum okkur auðvitað sigur og leggjum allt í sölurnar inná vellinum og vonumst til að heyra svakalegan stuðning úr stúkunni.

Mæta snemma takk, fá sér borgara, fyllum stúkuna og nærumhverfi og svo láta vel í sér heyra og sýna gestunum og öðrum hversu stórkostlegt okkar samfélag er og stendur saman ALLTAF
Áfram Tindastóll - Alltaf
Donni Þjálfari.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir