Keppni í kökuskreytingum á Unglingalandsmóti

Frá keppni í kökuskreytingum. Mynd: UMFÍ
Frá keppni í kökuskreytingum. Mynd: UMFÍ

Keppni í kökuskreytingum hefur verið á meðal þeirra fjölmennustu síðan greinin var kynnt til sögunnar fyrir nokkrum árum. Keppendur vinna með þema í kökuskreytingum. Þemað er fjölbreytileiki þetta árið.

„Keppendur þurfa að hugsa út fyrir kassann og sjá tækifærin sem leynast í hráefninu sem unnið er með,“ segir bakarameistarinn Róbert Óttarsson, sem er sérgreinastjóri í kökuskreytingum. Róbert segir undirbúning fyrir keppni í kökuskreytingum ganga vel og fólk á Króknum fullt tilhlökkunar.

TUGIR ÍÞRÓTTAGREINA

Unglingalandsmót UMFÍ hefst fimmtudaginn 3. ágúst og stendur það fram á sunnudaginn 6. ágúst. Mótið er fyrir keppendur sem verða 11 ára á árinu og upp í 18 ára. Boðið verður upp á næstum 20 keppnisgreinar og mikinn fjölda allskonar íþróttagreina og viðburða sem öll fjölskyldan getur tekið þátt í. Þar á meðal verður blindafótbolti, badminton með LED-ljósakúlum, borðtennis og bandý, tónleikar á hverju kvöldi og margt, margt fleira.

Keppni í kökuskreytingum verður í íþróttahúsinu á Sauðárkróki á sunnudeginum á milli klukkan 17:00-19:00.
Keppendur þurfa að koma með áhöld til skreytinga sem henta hverjum og einum, svo sem stúta, sprautur, sleikjur, skeiðar, hnífa, skæri, gaffla og ýmis skreytingatól. Á staðnum fá keppendur kökubotna og smjörkrem, ýmsar gerðir af matarlit og kökuskraut.

Einstaklingar geta tekið þátt og í tveggja manna liði. Veitt eru verðlaun hvoru tveggja í flokki einstaklinga og liðaflokki.

„Svo þurfa keppendur að vera hugmyndaríkir og útfæra kökurnar eftir eigin höfði,“ segir Róbert.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir