Kennslubókardæmi um svekkelsi í Kópavogi
Það má svekkja sig á ýmsu. Til dæmis að fara út að borða á fínum stað en finnast maturinn ekkert spes. Sumir svekkja sig með því að stíga á vigtina. Svo er svona svekkelsi eins og leikmenn Tindastóls upplifðu í dag þegar þeir lutu í gras í Fagralundi í Kópavogi. KFK sigraði Tindastól 1-0.
Þetta var svokallaður sex stiga leikur í 4. deildinni en með sigri hefðu Stólarnir komið sér vel fyrir í efri hluta deildarinnar og gefið sjálfum sér raunhæfan séns á að koma sér fyrir í toppbaráttu deildarinnar. Sama gilti um Kópavogspiltana, þeir voru með 13 stig fyrir leikinn en Stólarnir 11 og ef þeir ætluðu sér að berjast um eitt toppsætanna var sigur nauðsynlegur. Það var því mikið undir. Bæði lið voru varnarsinnuð og lítið um færi samkvæmt upplýsingum Feykis.
Markalaust var því í hálfleik en vonir Stólanna glæddust á 59. mínútu þegar það fækkaði um einn í liði heimamanna. Rúmur hálftími eftir af leiknum og að öllu jöfnu hefðu Stólarnir átt að geta nýtt sér liðsmuninn. En í stað þess að gestirnir gengu á lagið þá tókst Andra Jónassyni að troða inn sigurmarki á fjórðu mínútu í uppbótartíma og tryggja KFK 1-0 sigur. Þetta er dæmi um svekkelsi sem getur valdið þeim sem fyrir verða töluverðri ógleði.
Að sögn Jónasar Arons Ólafssonar, fyrirliða Tindastóls, var þetta 50/50 leikur. „Svo endar þetta á því að þeir byrja að dæla boltum inn í okkar teig þar sem við vörðumst ágætlega fram að markinu. Svekkjandi að fá ekkert út úr leiknum en við höldum bara áfram,“ sagði svekktur fyrirliðinn.
Eftir þessi úrslit hefur lið Tindastóls dregist nokkuð aftur úr toppliðunum fjórum, er með 11 stig í fimmta sæti 4. deildar. Fimm stig eru í liðin í þriðja og fjórða sæti, KFK og KÁ, en á toppnum eru Vængir Júpíters með 21 stig en Árborg er í öðru sæti með 19 stig. Nú á miðvikudag er annar sex stiga leikur en þá kemur lið KÁ í heimsókn og sá leikur verður að vinnast. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.