Kemst langt á ákveðni og einbeitingu

Saga Ísey er mætt í Bestu deildina. MYND: SIGURÐUR INGI
Saga Ísey er mætt í Bestu deildina. MYND: SIGURÐUR INGI

Saga Ísey Þorsteinsdóttir frá Hvammstanga er ansi efnileg knattspyrnustúlka. Hún er nýlega orðin 16 ára gömul en hefur skorað grimmt í gegnum tíðina. Síðasta sumar gerði hún 16 mörk fyrir 3. flokk Tindastóls/Hvatar/Kormáks sem náði fínum árangri á Íslandsmótinu og þrátt fyrir að hún spilaði upp fyrir sig, 15 ára síðasta sumar, þá gerði hún 13 mörk fyrir 2. flokk THK. Svo er Saga Ísey líka í Skólahreystisliði Grunnskóla Húnaþings vestra sem er komið í úrslitin.

Hún hefur alla tíð búið á Hvammstanga en foreldrar hennar eru Sigríður Elva Ársælsdóttir og Þorsteinn J. Guðmundsson. Fótbolti er hennar aðalsport en hún er alveg til í körfubolta þegar hún er í stuði. Hennar íþróttafélög eru Kormákur og Tindastóll og mesta íþróttaafrekið hennar hingað til segir hún hafa verið að komast í U16 æfingahóp Íslands í fótbolta og U15 í körfubolta.

Hvað er skemmtilegasta augnablikið í íþróttunum? Ég á mjög margar skemmtilegar minningar úr fótboltanum en ætli eftirminnilegasti leikurinn hafi ekki verið á móti Stjörnunni í undanúrslitum um Íslandsmeistaratitilinn í 4. flokki. Reyndar töpuðum við leiknum í vítaspyrnukeppni en það var mikil spenna í kringum leikinn og full stúka af áhorfendum.

Ertu með einhverja sérvisku eða hjátrú? Ég myndi ekki segja að ég væri hjátrúarfull.

Uppáhalds íþróttamaður? Á engan uppáhalds en Messi er geggjaður.

Hvert er uppáhaldsliðið í boltanum? Liverpool og Kormákur/Hvöt.

Ef þú mættir velja þér andstæðing, hver myndi það vera og í hvaða grein mynduð þið spreyta ykkur? Ég myndi velja Viktor Inga Jónsson í 1v1 í körfubolta.

Helsta afrek fyrir utan íþróttirnar? Ég vann einu sinni heimsmeistaramót í kleppara!

Hvað er verið að gera þessa dagana? Þessa dagana er ég að einbeita mér að því að sinna náminu, æfa og keppa.

Hverjir eru helstu kostir þínir í íþróttunum, ertu t.d. með mikið keppnisskap? Já, ég er með mikið keppnisskap og kemst langt á ákveðni og einbeitingu.

Hvernig er að taka þátt í Skólahreysti? Það var skemmtileg upplifun að fá að taka þátt í Skólahreysti, sérstaklega vegna þess hve vel okkur gekk. Hér á Hvammstanga er mikill metnaður fyrir Skólahreysti og hefst undirbúningur strax í upphafi skólaárs. Íþróttakennarar velja í liðið út frá árangri á æfingum.

Grunnskóli Húnaþings vestra er kominn í úrslit. Er mikill metnaður í liðinu að ná langt? Það er mjög mikill metnaður í liðinu og við stefnum auðvitað á sigur. Ef ég þekki íþróttakennarann minn rétt þá verður enginn afsláttur gefinn á æfingum fram að úrslitunum.

Þegar 3. flokkurinn fór út til Spánar þá voru sjö stelpur af 19 frá Hvammstanga. Hvernig stendur á því að svona mikið af efnilegum stelpum í boltanum koma frá Kormáki? Þetta er stelpuhópur sem ólst upp saman í fótbolta og við höfum drifið hvora aðra áfram í boltanum. Það hefur verið mikill áhugi fyrir boltanum hér síðustu ár en bæði foreldrar og þjálfarar hafa hjálpað okkur mikið.

Er góð stemning í sameinuðu liðunum? Það er mjög góð stemning í sameinuðu liðunum og við náum vel saman. Spánarferðin var frábær, okkur gekk vel á mótinu og komumst í undanúrslit. Aðallega snérist ferðin um fótbolta en við fórum líka í skemmtigarð sem var mjög skemmtilegt.

Nú er svolítið langt á milli liðanna sem eru að spila í sameinaða liðinu. Náið þið að æfa eitthvað saman eða hittist þið bara í leikjum? Á veturna náum við lítið að æfa saman og þá eru liðin mikið sitt í hvoru lagi en á sumrin er reynt að hafa reglulegar sameigin-legar æfingar. Það er lang skemmtilegast þegar við erum allar saman á æfingu.

Þú hefur verið að æfa með U16 hópi Íslands. Hvernig upplifun var það og hvernig fannst þér ganga? Það var mjög gaman að vera valin í U16 æfingahópinn og æfa með svona frábærum stelpum. Ég var bæði spennt og stressuð fyrir æfingunum en mér gekk bara vel. Nú er markmiðið sett á að komast aftur í næsta hóp.

Þú ert búin að skora heilan haug af mörkum fyrir sameinað lið Norðurlands vestra í fótboltanum, bæði í 3. og 2. flokki. Hvert er markmiðið hjá þér í sumar? Í sumar verð ég að keppa með 3. flokki og markmiðið hjá mér og liðinu er að gera betur en í fyrra. Ég vonast auðvitað til þess að fá sénsinn í Bestu deildinni í sumar.

Það má geta þess í lokin að Saga Ísey hefur þegar komið inn á í þremur leikjum Stólastúlkna í Bestu deildinni í sumar og var hársbreidd frá því að skora fyrsta markið í síðasta leik.

- - - - -

P.S. Til útskýringar þá er á Hvammstanga haldið heimsmeistaramót í Kleppara á hverju ári – þetta er viðburður á Eldi í Húnaþingi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir