Keflvíkingar fengu að kenna á eigin meðulum í Sláturhúsinu
Tindastólsmenn gerðu góða ferð í Keflavíkina í gær þar sem þeir mættu liði heimamanna sem hefur verið að gera got mót í Dominos-deildinni. Heldur hefur þó fjarað undan þeim Suðurnesjaköppum upp á síðkastið og Stólarnir létu þá aldeilis bragða á eigin meðali í fyrri hálfleik, keyrðu yfir heimamenn sem vissu ekki hvað snéri upp eða niður í Sláturhúsinu þar sem þeir eiga að þekkja hverja fjöl. Stólarnir slökuðu einum ef ekki tveimur of mikið á þegar líða fór á leikinn og mátti litlu muna að Keflvíkingar næðu að stela sigrinum í blálokin. Lokatölur 82-86 og frábær sigur staðreynd.
Heimamenn buðu gestunum upp á svæðisvörn í fyrri hálfleik og hana leistu Tindastólsmenn með miklum stæl, röðuðu niður 3ja stiga skotum í byrjun leiks en Keflvíkingar héngu í Stólaskottinu framan af. Valur Vals kom Keflvíkingum yfir 19-18 en þá gerðu Stólarnir níu stig í röð og staðan síðan að loknum fyrsta leikhluta, 24-31, takk fyrir túkall. Annar leikhluti var síðan glimrandi snilld af hendi Stólanna sem héldu heimamönnum í átta stigum í fjórðungnum. Það hefur örggulega ekki gerst oft í Sláturhúsinu. Sóknarleikur Tindastóls var síðan ótrúlega flottur og nánast allt gekk upp. Í leikhléi um miðjan leikhlutann teiknaði Jou Costa upp leikfléttu sem átti að skila Myron Dempsey alley-oopi og var ótrúlega magnað að sjá leikmenn skila fléttunni af fullkomnun nokkrum sekúndum síðar og troðsla Dempsey hápunktur leiksins. Helgi Margeirs naut sín heldur betur gegn svæðisvörn Keflvíkinga og endaði fyrri hálfleik stigahæstur með 14 stig. Staðan í hálfleik 32-56 fyrir Tindastól og ljóst að slys þurfti til svo að Tindastólsmenn færu tómhentir úr Keflavík.
Sennilega hefur Siggi Ingimundar, þjálfari Keflvíkinga, látið einhver lýsingarorð lúðrast um búningsherbergi heimamanna í hálfleik, því þeir unnu sig hægt og bítandi inn í leikinn í síðari hálfleik. Framan af þriðja leikhluta var þó jafnræði með liðunum og Tindastóll náði mest 26 stiga forystu þegar rúmar 16 mínútur voru til leiksloka. Staðan þá 37-63. Þá hafði Maggi Gunn fengið dæmda á sig óíþróttamannslega villu eftir fantabrot þegar Dempsey var að troða í körfu heimamanna. Eftir það kviknaði loks á Keflvíkingum sem fóru að setja erfið skot niður og Jerome Hill fór að láta til sín taka undir körfunni. Þeir minnkuðu muninn í þrettán stig en Pétur Birgis, sem átti góðan leik, skoraði laglega körfu í þann mund sem leiktíminn í þriðja leikhluta rann út. Staðan 60-75.
Nú var stemningin skyndilega með Keflvíkingum og þeir gerðu fimm fyrstu stigin í lokaleikhlutanum. Tindastólsmenn reyndu að spila lengri sóknir en fyrir vikið var flæðið í sóknarleiknum ekki gott. Keflvíkingar voru þó, eins og þeirra er siður, gjarnir á að taka ótímabær skot og voru stundum allt of snöggir að hlaða byssurnar og láta vaða í stað þess að reyna að finna gott skot. Stólarnir fóru ítrekað á vítalínuna og nýttu skotin ekki nógu vel. Hill minnkaði muninn í sex stig þegar rétt rúmar fjórar mínútur voru eftir en næstu þrjú stig komu frá Dempsey. Maggi Gunn svaraði með þristi og þegar tvær mínútur voru eftir var munurinn kominn niður í fjögur stig og allt á suðupunkti. Pétur gerði síðan frábæra körfu sem vann í raun leikinn fyrir Stólana, hann braust upp að körfu heimamanna og setti boltann niður í erfiðu skoti. Það sem eftir lifði var æsingurinn í Keflvíkingum of mikill og Stólarnir fóru illa með nokkur góð færi en það kom ekki að sök. Lokatölur sem fyrr segir 82-86.
Darrel Lewis var stigahæstur Tindastólsmanna með 22 stig og hann tók átta fráköst. Enn á ný var Dempsey þó frábær með 19 stig og þrettán fráköst en Anthony Gurley kom ekki mikið við sögu í gærkvöldi. Helgi Margeirs endaði með 18 stig og Pétur 12. Lið Tindastóls var með flotta nýtingu í 3ja stiga skotum eftir fyrri hálfleik, hafði þá gert átta slíkar í 15 tilraunum, en það fór engin niður í síðari hálfleik þrátt fyrir mýmargar tilraunir.
Eftir leikinn er lið Tindastóls í sjötta sæti í deildinni með 22 stig líkt og Þór og Njarðvík. Haukar eru tveimur stigum fyrir ofan í fjórða sætinu og það þarf mikið að gerast til að þeir gefi það eftir. Það er því líklegast að lið Tindastóls endi í 5., 6. eða 7. sæti og mótherjar liðsins í úrslitakeppninni verði því annað hvort lið Keflvíkinga, Stjörnunnar eða Hauka.
Næsti leikur Tindastóls er hér heima í Síkinu nk. fimmtudag en þá kemur meistaralið KR í heimsókn. Hvernig væri að bregða sér í Síkið?
Stig Tindastóls: Lewis 22, Dempsey 19, Helgi Margeirs 18, Pétur 12, Viðar 7, Gurley 4 og Helgi Viggós 4.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.