Keflavík mætir grjóthörðum Stólastúlkum í dag

Það verður hart tekist á í dag en þá kemur í ljós hvort Tindastóll eða Keflavík fer áfram í úrslitakeppni 1. deildar kvenna.
Það verður hart tekist á í dag en þá kemur í ljós hvort Tindastóll eða Keflavík fer áfram í úrslitakeppni 1. deildar kvenna.

Stelpurnar í meistarflokki Tindastóls taka á móti Keflavík í úrslitakeppni 1. deildar á Sauðárkróksvellli í dag. Um seinni viðureign liðanna er að ræða og hrein úrslit verða að nást. Fyrri leikur liðanna fór fram sl. sunnudag í Keflavík og þar höfðu heimastúlkur betur í spennandi leik 3-2 svo 1-0 sigur dugar fyrir okkar stelpur með fleiri mörk skoruð á útivelli.

Tindastóli hefur gengið mjög vel í sínum riðli í sumar, unnið 8 leiki, gert eitt jafntefli og tapað einum leik og enduðu stelpurnar tímabilið á toppnum með 25 stig og markahlutfallið 40-14. Markahæstar í liðinu voru þær Jesse Shugg með 9 mörk, Kasey Wyer 6, Hugrún Pálsdóttir 5, Vigdís Edda Friðriksdóttir 5, Kolbrún Ósk Hjaltadóttir 4 en aðrar færri.

Keflvíkingar léku fjórum leikjum fleiri en Tindastóll og þar unnu þær 8 leiki, gerðu eitt jafntefli og töpuðu fimm. Markaahlutfall þeirra var 38-13 og var Sveindís Jane Jónsdóttir langmarkahæst í B riðli sem og í deildinni með 18 mörk. Sveindís skoraði eitt mark á móti Tindastóli í síðasta leik og væntanlega verður hún með varnarmann á bakinu allan leikinn í dag.

Allir eru hvattir til að fjölmenna á völlinn og styðja stelpurnar í skemmtilegri og hörku baráttu um  áframhaldandi veru í úrslitakeppni 1. deildar.

Leikurinn hefst klukkan 17:15 og frítt verður á völlinn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir