Karl Lúðvíksson hlaut Samfélagsviðurkenningu Molduxa 2023
Við setningu Jólamóts Molduxa, sem haldið var annan dag jóla, var upplýst hver hlýtur hin eftirsóttu Samfélagsviðurkenningu Molduxa en þau hafa verið veitt frá árinu 2015. Að þessu sinni féll hún Karli Lúðvíkssyni í skaut en hann hefur verið ötull í hvers kyns starfi fyrir sitt samfélag á sviði almenningsíþrótta og sjálfboðaliðsstarfa, ekki síst í þágu fatlaðra.
Karl, eða Kalli, eins og hann er iðulega kallaður, er frá Skagaströnd en hefur átt heima í Varmahlíð í 39 ár og þar er gott að búa, segir hann. Kalli tók tvö ár við undirbúningsdeild sérnáms í Kennaraskóla Íslands (1969-1971) og fór síðan í Íþróttakennaraskóla Íslands á Laugarvatni og útskrifaðist þaðan sem íþróttakennari 1972 og auk þess með kennararéttindi í nokkrum bóklegum greinum.
Nú er kappinn kominn á áttræðisaldur og hættur að kenna nema skyndihjálp og endurlífgun og skyndihjálp og björgun. Hann segist þó reyndar vera með tvo íþróttatíma í viku fyrir 16 ára og eldri á vegum Ungmenna- og íþróttafélagsins Smára í Varmahlíð sem samanstanda af stöðvaþjálfun og bandý. Þetta gerir hann í sjálfboðavinnu og hefur gaman af vegna þess að hópurinn er góður og takmarkið að viðhalda góðri heilsu bæði andlega og líkamlega.
Störfin með fötluðum hafa gefið Kalla mest
Kalli er með kennsluréttindi í stafgöngu og hefur leiðbeint bæði hópum og einstaklingum sem hafa leitað til hans og alltaf í sjálfboðavinnu. Síðan hefur hann verið með vatnsleikfimi fyrir þá sem búa við einhverja hreyfihömlun eða fötlun þegar Farskólinn hefur leitað til hans.
Þá eru ótalin fjöldi verkefna fyrir bæði Rauða krossinn og Kiwanisklúbbinn Drangey sem hann hefur komið að í sjálfboðavinnu og haft bæði gagn og gaman af.
Hann segir störf sín með fötluðum hafa gefið sér mesta gleði gegnum tíðina, bæði í kennslu, sumarbúðastarfi og öðrum verkefnum og samveru með þeim. Þar á hann líka marga góða vini og auk þess marga góða vini í hópi foreldra þeirra sem alltaf studdu við það sem gert var á jákvæðan og uppbyggilegan hátt.
Í lokin má minnast á góðan árangur í bæði júdó- og glímuþjálfun vegna þess að margoft fór Kalli með unga keppendur Júdódeildar Tindastóls á Íslandsmót í júdó og kom heim með nokkra Íslandsmeistara í yngri flokkunum og eitt sinn var hann með glímuþjálfun í Varmahlíðarskóla og fór þá með þrjá drengi á mót í Keflavík og að sjálfsögðu unnu þeir til verðlauna.
Skúli hlaut Samfélagsviðurkenninguna fyrstur
Það var Skúli Jónsson sem fyrstur manna tók við Samfélagsviðurkenningu Molduxa árið 2015 en árið eftir fékk þau Rannveig Helgadóttir, Kári Marísson 2017, Hrafnhildur Pétursdóttir 2018 og árið 2019 kom hún í hlut Árna Stefánssonar. Vegna Covid-áhrifa voru hvorki haldin mót árin 2020 né 2021 en í fyrra, 2022 komu þau í hlut Björns Hansen.
/fréttatilkynning
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.