Jafnt í fjörugum leik Tindastóls og Víkings
Eftir þrjá tapleiki í röð ætluðu Stólastúlkur að næla í þrjú stig þegar bikarmeistarar Víkings komu valhoppandi norður yfir heiðar. Loks var leikið á gervigrasinu á Króknum en þar höfðu Stólastúlkur ekki sparkað í keppnistuðru síðan leysingahelgina miklu í apríl. Leikurinn var ágæt skemmtun, hart var barist en eftir að gestirnir náðu forystunni snemma í síðari hálfleik sáu þær um að jafna leikinn þegar skammt var til leiksloka. Liðin fengu því sitt hvort stigið eftir 1-1 jafntefli.
„Ég vildi auðvitað fá þrjú stig hér á heimavelli en eins og leikurinn þróaðist þá já er ég mjög ánægður með eitt stig,“ sagði Donni þjálfari að leik loknum þegar Feykir spurði hann hvort hann væri sáttur við stigið. Fyrri hálfleikur var jafn og bæði lið fengu ágæt færi til að opna markareikninginn. Á 52. mínútu brutu Víkingar ísinn með laglegu marki þar sem Hafdís Bára Höskuldsdóttir skallaði góða fyrirgjöf í fjærhornið hjá Monicu. Markið kom nokkuð gegn gangi síðari hálfleiks og lið Tindastóls reyndu ákaft að jafna leikinn í kjölfarið. Lara Margrét og Elísa Bríet fengu fín færi en tókst ekki að klára. Á 84. mínútu jöfnuðu heimastúlkur síðan metin en Jordyn gerði þá vel á hægri kantinum, náði góðri sendingu inn á markteig þar sem Emma Steinsen setti boltann í eigið mark með Sögu Ísey í bakinu. Lokamínúturnar voru síðan æsispennandi en ekki tókst liðunum að gera sigurmark.
Úrslitin þýða að lið Tindastóls er enn í sjöunda sæti en liðin þrjú fyrir neðan töpuðu öll sínum leikjum í umferðinni. Stólastúlkur eru með sjö stig eftir átta leiki en í næstu sætum fyrir ofan eru Stjarnan og Víkingur með níu stig. Næst eiga stelpurnar útileik gegn Keflavík föstudaginn nk. og þar með lýkur fyrri umferð Bestu deildarinnar.
Ánægður með heildarframmistöðu leikmanna
„Þessi leikur hefði getað farið hvernig sem er. Mér fannst hann mjög skemmtilegur og hann opnaðist sérstaklega seinni hluta seinni hálfleiks sem var örugglega gaman fyrir áhorfendur. Bæði lið fengu færi til að klára leikinn en jafntefli sanngjörn úrslit að mínu mati. Ég er heilt yfir ánægður með heildar frammistöðu leikmanna,“ sagði Donni í spjalli við Feyki.
Eitt stig úr síðustu fjórum leikjum eftir tvo góða sigurleiki þar á undan. Er einhver leikur sem situr í þér og hvað finnst þér vanta upp á hjá liðinu? „Af þessum fjórum leikjum vorum við í tvígang einfaldlega að spila við sterkari andstæðing á útivelli (Valur og Þór/KA). Þróttara leikurinn var frekar jafn þar sem þrjú föst leikatriði og langskot skildu liðin að og sá leikur sat aðeins í okkur. En mér fannst við finna taktinn betur þegar leið á leikinn í dag og við getum byggt ofan á það.“
Er eitthvað sem er að koma á óvart í Bestu deildinni þetta sumarið? „Nei, í raun ekki, deildin er að spilast nokkurn veginn eftir bókinni. Það eru þrjú lið sem eru best og hin að reyna að halda í við þau og berjast í þessu,“ sagði Donni að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.